Hoppa yfir valmynd
5. maí 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aðgerðum í loftslagsmálum flýtt

Alls verður 550 milljónum króna ráðstafað aukalega í ár til loftslagsmála í sérstöku tímabundnu fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar sem Alþingi samþykkti í lok mars til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Búið er að útfæra nánar skiptingu fjármagnsins milli verkefna sem tengjast orkuskiptum og kolefnisbindingu í þágu loftslagsmála auk þess sem Loftslagssjóður verður styrktur.

Gert er ráð fyrir að 300 milljónum verði varið til verkefna vegna orkuskipta. Um tveir þriðju þess fjármagns, eða 210 milljónir fara til styrkja til að stuðla að frekari rafvæðingu hafna. Ráðist verður í úttekt á ávinningi innlendrar eldsneytisframleiðslu (10 m), greindar verða hindranir og tækifæri svo hraða megi orkuskiptum í bílaflotum bílaleiga (20 m) og möguleikar til orkuskipta í þungaflutningum verða rannsakaðir (10 m). Eins verða styrkir veittir félagasamtökum til rafvæðingar gistiskála sem liggja utan almenna raforkukerfisins (50 m).

Alls verður 200 milljónum varið til ýmissa verkefna á sviði kolefnisbindingar. Alls fara 75 milljónir til aukinnar skógræktar með birkiplöntum og ráðist verður í átak í grisjun ungskóga (20 m). Verkefni landgræðslufélaga verða efld (25 m) og endurheimt votlendis verður aukin (20 m). Þá verður ráðist í tilrauna- og átaksverkefni á Norðurlandi og Suðurnesjum um nýtingu á moltu m.a. til repjuræktar, skógræktar og uppgræðslu í samstarfi ýmissa aðila (20 m) og nýjum verkefni um endurheimt landgæða verður hrint í framkvæmd (40 m).

Loks bætist við 50 milljóna króna fjárveiting til Loftslagssjóðs til viðbótar í úthlutunarfé sjóðsins sem ráðgerð er nú á vormánuðum.

„Við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum þessi misserin vegna afleiðinga kórónaveirunnar. Afar mikilvægt er að halda áfram að vinna af krafti að loftslagsmálum og beina auknu opinberu fjármagni til verkefna á því sviði. Sú skipting fjármuna sem við kynnum hér skilar okkur hraðari orkuskiptum, minni losun gróðurhúsalofttegunda og frekari verndun náttúrunnar sem er mikilvægt fyrir framtíðina“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum