Hoppa yfir valmynd
6. maí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kerfið virki fyrir þá sem eru í mestri þörf

 Alþingi - mynd Mynd: iStock

Dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Frumvarpið var upphaflega lagt fram á 149. löggjafarþingi en þá einungis til breytinga á lögum um útlendinga. Frumvarpið er nú endurflutt að miklu leyti óbreytt, en helstu viðbætur fela í sér breytingar á tilgreindum ákvæðum laga um útlendinga varðandi útgáfu dvalarleyfa og laga um atvinnuréttindi útlendinga varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa.

Mikilvægt að standa vörð um verndarkerfið

Í máli dómsmálaráðherra kom fram að markmið breytinganna væru meðal annars mannúðleg og skilvirk meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd - sem sé ávallt leiðarljósið við meðferð þessara mála eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Ráðherra lagði áherslu á að mikilvægt væri að standa vörð um verndarkerfið sem við höfum komið okkur upp hér á landi til að aðstoða þá sem hingað leita á flótta frá ofsóknum og lífshættu í heimalandi sínu. Vilji stæði til þess að gera vel við þá sem eiga rétt á aðstoð og afgreiða umsóknir hratt og örugglega svo kerfið virki fyrir þá sem mest þurfa á því að halda.

600 að jafnaði í þjónustu hérlendis

Dómsmálaráðherra sagði að þótt heildarfjölda umsókna um alþjóðlega vernd hefði fækkað frá því sem var á árunum 2016 og 2017 væri enn að berast mikill fjöldi umsókna eða tæpar 900 í fyrra.

Ráðherra sagði samsetningu hópsins hefði breyst og tilhæfulausum umsóknum fækkað. Á hinn bóginn hefði umsækjendum um alþjóðlega vernd á Íslandi aukist verulega í hópi þeirra sem leiti eftir alþjóðlegri vernd á nýjan leik, þ.e. þeir sem eru búnir að fá vernd í öðru Evrópuríki og hafa þar af leiðandi þegar fengið þá aðstoð og réttindi sem standa almennt ríkisborgurum landanna til boða. Einnig hafi fjölgað í hópi þeirra sem hingað leita eftir vernd þrátt fyrir að vera með umsókn til afgreiðslu í öðru Evrópuríki. Loks hafi fjölgað töluvert í hópi þeirra sem eru að flýja lífshættulegt ástand og ofsóknir í heimalandi sínu.

Það sé því svo komið að um 600 einstaklingar þiggi að jafnaði nú þjónustu hér á landi meðan þeir bíði úrlausnar umsókna sinna um alþjóðlega vernd eða endursendingu til annars ríkis. Vegna fjöldans ráði stjórnsýslan ekki við að afgreiða umsóknir með skilvirkum og mannúðlegum hætti innan ásættanlegs tíma auk þess sem kostnaður við framfærslu umsækjenda um alþjóðlega vernd aukist hratt. Það er því brýnt að bregðast snarlega við og er þetta frumvarp liður í því.

Mikilvægt að kerfið virki fyrir þá sem eru í mestri þörf

Mikilvægt sé að þeir einstaklingar sem hingað leita og eru í raunverulegri þörf fyrir alþjóðlega vernd fái umsókn sína afgreidda skjótt og örugglega svo hefja megi vinnu við árangursríka aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Frumvarp þetta geri stjórnvöldum kleift að afgreiða með skilvirkum og mannúðlegum hætti umsóknir sem almennt leiða ekki til veitingar alþjóðlegrar verndar og þannig draga úr fjölda slíkra umsókna. Það sé grundvallarforsenda að stjórnvöld hafi rými til að beina athyglinni að þeim hópi umsækjenda sem eru í raunverulegri þörf fyrir vernd og verndarkerfið er hannað fyrir. Þessar breytingar myndu einnig draga úr kostnaði ríkissjóðs og bæta meðferð opinbers fjár.

Fylgjast má með framgangi málsins hér á vef Alþingis

  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum