Hoppa yfir valmynd
7. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Fyrsti fundur aðalsamningamanna Íslands og Bretlands um framtíðarsamband ríkjanna

Aðalsamningamaður Íslands fyrir framtíðarviðræður við Bretland, Þórir Ibsen, átti í dag fjarfund með Lindsay Appleby aðalsamningamanni Bretlands ásamt aðalsamningamönnum Noregs og Liechtenstein, hinna EES-ríkjanna innan EFTA. Efni fundarins var skipulag viðræðna og markmið hvers og eins ríkis á hverju og einu samningssviði fyrir sig. Fundurinn var mikilvægur þáttur í því að leggja grunn að framtíðarviðræðum við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr EES-samningnum. Aðalsamningamenn voru sammála um það að hefja viðræður svo fljótt sem auðið er. 

Framtíðarviðræður við Bretland skiptast í megindráttum í þrennt, einn hluti snýr að fríverslunarviðræðum, annar að úrlausn mála sem falla utan fríverslunarviðræðna og sá þriðji snýr að framkvæmd útgöngusamnings Bretlands. Allir þessir þrír þættir voru ræddir á meðal aðalsamningamanna. Aðalsamningamenn voru sammála um að margt sé líkt með nálgunum þeirra og áherslum og að sú staðreynd komi til með að auðvelda viðræðurnar. 

Covid-19 faraldurinn hefur, eins og gefur að skilja, seinkað viðræðum miðað við þær tímalínur sem upphaflega var lagt upp með. Sú seinkun sem orðið hefur á viðræðunum er bagaleg, sérstaklega í ljósi þess að viðræðurnar voru þá þegar og eru enn undir mikilli tímapressu ef nást á að semja fyrir lok ársins. Fulltrúar allra ríkjanna fjögurra voru samt sem áður sammála um að láta þá erfiðu stöðu sem nú er upp vegna Covid-19 faraldursins ekki koma í veg fyrir áframhaldandi samskipti. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sagði af þessu tilefni: „Ljóst er að verkefnið framundan er ærið og ekki hefur sú seinkun sem orðið hefur vegna Covid-19 faraldursins bætt úr skák. Ég er engu að síður vongóður um að hægt sé að ná skjótum árangri í viðræðnum sérstaklega í ljósi þess jákvæða andrúmslofts sem fram kom á fundinum.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira