Hoppa yfir valmynd
7. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra kynnt á Alþingi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti í dag Alþingi skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál. Skýrslan gefur greinargott yfirlit yfir stöðu utanríkismála Íslands og helstu atburði á þeim vettvangi undanfarna tólf mánuði.

Ráðherra hóf ræðuna á að minnast þess að áttatíu ár eru liðin frá því að Íslendingar tóku þá gæfuríku ákvörðun að taka meðferð utanríkismála í eigin hendur. „Þótt margt hafi breyst á vettvangi utanríkisþjónustunnar á þessum tíma þá er meginhlutverkið enn hið sama; að standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar á erlendum vettvangi,“ sagði ráðherra.

Ráðherra lagði áherslu á að utanríkismál hafi sjaldan skipt íslensku þjóðina jafn miklu máli og nú þegar COVID-19 heimsfaraldurinn hefur á svipstundu breytt heimsmyndinni, í stóru sem smáu, og þjóðir heims standi ekki eingöngu frammi fyrir alvarlegri heilsufarsógn heldur mögulega mestu heimskreppu okkar tíma. „Starfsfólk utanríkisþjónustunnar heima og erlendis hefur unnið að því sem einn maður að aðstoða um tólf þúsund Íslendinga sem voru erlendis þegar faraldurinn braust út. Þá hefur utanríkisþjónustan ásamt Íslandsstofu lagt kapp á að aðstoða íslensk útflutningsfyrirtæki við gjörbreyttar aðstæður,“ sagði Guðlaugur Þór. Norrænt samstarf hafi sannað gildi sitt sem hafi kristallast í nánu samstarfi ríkjanna í borgaraþjónustu undanfarnar vikur.

Guðlaugur Þór benti á að átján mánaða seta Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sem lauk um áramótin, hafi tvímælalaust verið eitt veigamesta hlutverk sem Ísland hefur gegnt á alþjóðavettvangi og framganga Íslands hafi vakið eftirtekt. „Mesta athygli vakti þegar Ísland hafði í mars 2019 frumkvæði að því að flutt var sameiginlegt ávarp 36 ríkja um ástand mannréttinda í Sádi-Arabíu,“ sagði Guðlaugur Þór.  Áhersla á jafnrétti og mannréttindi kvenna einkenndi málflutning Íslands og samþykkti mannréttindaráðið til að mynda ályktun Íslands og fleiri ríkja um jöfn laun til handa körlum og konum.

Ráðherra undirstrikaði í ræðunni að utanríkisviðskipti séu forsenda þess að lífskjör Íslendinga haldist áfram góð. „Góðir viðskiptasamningar við erlend ríki eru lykillinn að því að tryggja íslenskum fyrirtækjum bestu mögulegu viðskiptaumgjörð. Fríverslunarsamningar sem Ísland hefur gert ná til 74 landa sem alls telja tæplega 2,9 milljarða manna, eða rúmlega þriðjung mannkyns,“ sagði Guðlaugur Þór. Í krafti aðildar sinnar að EFTA hafi Ísland gert 29 samninga við 40 ríki og landsvæði.

Ráðherra benti á að þau tímamót hafi orðið á síðasta ári að sérstök skýrsla um EES-samninginn hafi verið gefin Alþingi sem undirstriki mikilvægi þessa einstaka samnings. Á sama tíma hafi utanríkisráðuneytið lagt áherslu á að byggja upp enn nánara samstarf við Bandaríkin. Áhugi bandarískra stjórnvalda á efnahagslegri samvinnu við Ísland hefur aukist, einkum í kjölfar heimsóknar utanríkisráðherra Bandaríkjanna hingað til lands í fyrravetur og hringborðsumræðna utanríkisráðherra og varaforseta Bandaríkjanna um samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála í september í fyrra.

Í ræðunni ræddi ráðherra einnig viðamikla hagsmunagæslu Íslands vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu sem hefur verið forgangsmál í utanríkisráðuneytinu. Fyrr á þessu ári hafi verið undirritaður samningur við Breta sem leysir úr viðeigandi útgönguskilmálum með sambærilegum hætti og gert er í útgöngusamningi Bretlands og ESB. Þá mun Ísland brátt hefja samningaviðræður við Bretland um framtíðarsamskipti ríkjanna. „Ekki verður hvikað frá því höfuðmarkmiði að fá að minnsta kosti sambærileg viðskiptakjör og önnur ríki á EES-svæðinu og freista þess um leið að ná fram atriðum er varða sérstöðu Íslands og kjarnahagsmuni,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ráðherra benti jafnframt á í ræðunni að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkjamenn séu sem fyrr hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu. Breytt öryggisumhverfi í Evrópu hafi kallað á aukinn viðbúnað í okkar heimshluta. Á þingi Norðurlandaráðs sl. haust var af hálfu Íslands lögð áhersla á aukið norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála, en efling samstarfsins hafði verið forgangsmál í formennskuáætlun Íslands. Náðst hafi samstaða um tillögu utanríkisráðherra að fela Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra, að skrifa skýrslu þar sem gerðar verða tillögur um hvernig megi þróa samstarf Norðurlandanna enn frekar. Verður horft sérstaklega til loftslagsmála, fjölþátta ógna og netöryggis, ásamt styrkingu fjölþjóðlegrar samvinnu og alþjóðalaga.

Ráðherra lagði einnig áherslu á að innan utanríkisráðuneytisins hafi þróunarsamvinna fengið aukið vægi. Ný þróunarsamvinnustefna hafi verið samþykkt á Alþingi fyrir ári síðan en í henni endurspeglast áherslur Íslands um að nýta þá sérþekkingu sem við búum yfir á fjölmörgum sviðum við uppbyggingu innviða og atvinnuvega í þróunarlöndum í samvinnu við íslenskt atvinnulíf.

Skýrslu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum en jafnframt hefur verið gefið út sérstakt hefti með útdrætti úr skýrslunni. Fjölmargar tölulegar upplýsingar koma fram í skýrslunni sem settar eru fram á myndrænan hátt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira