Hoppa yfir valmynd
13. maí 2020 Innviðaráðuneytið

200 milljóna kr. viðbótarfjárveiting til sóknaráætlana

Heyskapur í Landsveit - myndHugi Ólafsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti nýlega 200 milljóna kr. viðbótarfjárveitingu í sóknaráætlanir landshluta en hún er liður í fjárfestingarátaki stjórnvaldi til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og styðja við verkefni á landsbyggðinni.

Viðbótarfjárveitingin mun renna til sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga á landsbyggðinni. 150 milljónir kr. skiptast jafnt á milli landshluta og 50 m.kr. dreifast á landshluta að teknu tilliti til hlutfalls atvinnutekna í gistingu og veitingum árið 2018 á hverju svæði fyrir sig. Hver landshluti fær því samtals á bilinu 25,2 m.kr. til 36 m.kr. til ráðstöfunar.

Jöfn skipti Hlutfallsskipti Samtals
Suðurnes 21,4 6,6 28
Vesturland 21,4 7 28,4
Vestfirðir 21,4 3,8 25,2
Norðurland vestra 21,4 4,5 26
Norðurland eystra 21,4 8,1 29,6
Austurland 21,4 5,4 26,8
Suðurland 21,4 14,6 36
Alls (tölur í m.kr.) 150 50 200
 
Landshlutasamtök sveitarfélaga sjá um að ráðstafa fjármagninu á hverju svæði. Skilyrði er að fjármunum skuli varið í verkefni sem eru atvinnuskapandi og/eða stuðli að nýsköpun og að leggja skuli áherslu á þær atvinnugreinar sem orðið hafa hvað verst úti vegna Covid-19 faraldursins.

Auglýst eftir hugmyndum í fimm landshlutum

Vestfjarðastofa auglýsti eftir tillögum að átaksverkefnum. Umsóknarfrestur rann út nýlega og alls bárust 62 tillögur. 45 m.kr. verða til ráðstöfunar á Vestfjörðum en verið er að vinna úr tillögum og áherslur byggðar á greiningum og samtölum við fyrirtæki og sveitarfélög á svæðinu. 

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra auglýstu einnig eftir hugmyndum að átaksverkefnum til að styrkja og fengu sendar 90 tillögur. Gert ráð fyrir að verkefni á sviði ferðaþjónustu, ásamt nýsköpun, verði fyrirferðamest. Til ráðstöfunar með þessum hætti verða allt að 50 m.kr. Stjórn SSNV tekur afstöðu til tillagnanna í þessari viku.

Samband sveitarfélaga á Norðurlandi eystra fór sömuleiðis þá leið að auglýsa eftir áhersluverkefnum og eru 42 m.kr. til ráðstöfunar. Umsóknarfrestur rann út 30. apríl og stendur úrvinnsla yfir. Alls bárust 109 umsóknir.

Á Austurlandi verður fjármunum ráðstafað til verkefna sem styðja við ferðaþjónustu og nýsköpun. Farin var sú leið að kalla eftir hugmyndum, meðal annars frá fyrirtækjum og sveitarfélögum. Þá eru Austfirðingar að skoða með hvaða hætti er hægt að veita aðstoð við að sækja um fjármagn í sjóði Rannís. 

Sunnlendingar verða með sértæka úthlutun þar sem alls 65 milljónum kr. verður varið til verkefnisins Sóknarfæri ferðaþjónustunnar. Markmiðið er að styðja við starfandi fyrirtæki í ferðaþjónustu sem orðið hafa fyrir tekjutapi vegna fækkunar ferðamanna. Verkefnið skiptist í þrjá verkþætti. Í fyrsta lagi stuðning við markaðssókn gagnvart innlendum ferðamönnum í sumar. Í öðru lagi með stofnun nýs samkeppnissjóðs þar sem fyrirtæki í ferðaþjónustu og fyrirtæki sem hafa megintekjur sínar af ferðamönnum og ferðaþjónustu geta sótt um verkefnastyrki. Og í þriðja lagi fræðsla og miðlun þekkingar til ferðaþjónustufyrirtækja. Auglýst var eftir umsóknum í lok apríl og var umsóknarfrestur til 12. maí. 

Áhersluverkefni í tveimur landshlutum

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa ákveðið að nýta fjármunina í tvö áhersluverkefni tengd ferðaþjónustu. Annað verkefnið er Ferðaleiðir á Vesturlandi sem á rætur í Áfangastaðaáætlun Vesturland. Vinna er þegar hafin við ferðaleiðir á Akranesi og í Hvalfirði, á Snæfellsnesi er unnið að gerð ferðaleiða í samstarfi við Svæðisgarð Snæfellsness, í Dalabyggð er ferðaleið í mótun sem yrði hluti af Vestfjarðaleiðinni og loks er að hefjast vinna við ferðaleið í Borgarfirði. Hitt verkefnið snýst um markaðssetningu og viðburði á Vesturlandi. Það mun snúast um átak í að markaðssetja Vesturland og stuðla að því að sem víðast verði viðburðardagskrá í gangi á Vesturlandi.  

Á Suðurnesjum hefur verið ákveðið að setja fjármunina í áhersluverkefni og áætlað að heildarfjárhæð geti numið allt að 68 m.kr. Stærsti hluti fjármagnsins fer í stuðning við ferðaþjónustu á svæðinu, meðal annars í markaðsherferð og halda námskeið fyrir ferðaþjónustuna. Þá verður fjármunum varið til safna og gestastofu Reykjanes UNESCO Geopark til að laða að gesti. Loks var ákveðið að endurvekja Frumkvöðlasetur á Suðurnesjum til að bæta þjónustu við frumkvöðla og styðja við nýsköpun á svæðinu. Það er m.a. gert vegna aukins atvinnuleysis á Suðurnesjum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum