Hoppa yfir valmynd
15. maí 2020 Heilbrigðisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Verkefnisstjórn falinn undirbúningur að sýnatöku hjá komufarþegum

Verkefnisstjórn sem heilbrigðisráðherra skipar mun stýra undirbúningi og framkvæmd við sýnatöku og greiningar á COVID-19 meðal farþega sem koma til landsins, í samræmi við ákvörðun stjórnvalda. Heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra kynntu minnisblað varðandi þetta á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Stefnt er að því að eigi síðar en 15. júní geti ferðamenn sem koma til landsins farið í skimun á Keflavíkurflugvelli eða framvísað vottorði sem sóttvarnalæknir metur gilt kjósi þeir það fremur en að fara í sóttkví. Tveimur vikum eftir að skimun hefst verður verkefnið metið og tekin ákvörðun um framhaldið á grundvelli þess.

Í minnisblaði ráðherranna segir að viss áhætta sé fólgin í því að draga úr sóttvarnaráðstöfunum og liðka fyrir ferðalögum til og frá landinu þar sem fá ríki hafi náð jafn góðum tökum á faraldrinum og hér. Aftur á móti megi líta til þess að í ljósi góðrar stöðu okkar og þeirrar staðreyndar að fyrr eða síðar verði aukin ferðalög til og frá landinu óhjákvæmileg sé nú tímabært að huga að tilslökunum. Að ýmsu leyti sé hagstætt að gera það núna þar sem ferðalög á milli landa séu hvort eð er í lágmarki og því svigrúm fyrir hendi til að prófa sig áfram án þess að missa tök á ástandinu.

Heilbrigðisráðherra hefur falið Hildi Helgadóttur verkefnastjóra og forstöðumanni á Landspítala að leiða vinnu verkefnisstjórnarinnar. Í henni munu enn fremur eiga sæti fulltrúar sóttvarnalæknis, ríkislögreglustjóra, ISAVIA, Landspítala og lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli. Yfirlögfræðingur heilbrigðisráðuneytisins verður starfsmaður verkefnastjórnarinnar.

Eins og fram kemur í meðfylgjandi skipunarbréfi formanns er markmiðið að sýni verði tekin úr öllum komufarþegum í Keflavík sem það kjósa fremur en að fara í sóttkví. Vottorð/rannsóknarniðurstaða frá öðrum löndum geta einnig komið í stað sóttkvíar, að því gefnu að sóttvarnalæknir meti vottorðið fullnægjandi. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar verður einnig að greina hvaða kröfur þarf að gera til slíkra vottorða og hvernig þeim skuli framvísað og þau metin af hérlendum yfirvöldum.

Verkefnisstjórnin á einnig að gera tillögur um framkvæmd sýnatöku og greiningar hjá farþegum sem koma til landsins eftir öðrum leiðum en með flugi til Keflavíkur.

Áætlun með ýtarlegri verk- og tímaáætlun ásamt kostnaðaráætlun skal liggja fyrir eigi síðar en 25. maí næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum