Hoppa yfir valmynd
16. maí 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Rannsóknarsetur um allt land

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 16. maí 2020.

Gott aðgengi að menntun og öflugt vísinda- og rannsóknastarf um allt land er mikilvægt. Við sem þjóð höfum ekki efni á að láta tækifærin fara fram hjá okkur, jafnvel án þess að taka eftir þeim. Þetta á við bæði um tækifæri til nýsköpunar innan hefðbundinna atvinnugreina, landbúnaðar og sjávarútvegs, en ekki síður innan menningarstarfs, ferðaþjónustu og fleiri greina.

Menntun og rannsóknarstarf
Það eru mikil sóknartækifæri í uppbyggingu þekkingarstarfsemi, sem tekur mið af sérstöðu hvers landsvæðis fyrir sig. Það skilar árangri að efla svæðisbundna rannsókna- og þekkingarkjarna og stuðla að faglegum tengslum bæði þeirra á milli og við háskóla, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki. Með auknu samstarfi má nýta mannauð og aðstöðu betur og auka aðgengi nemenda og fræðimanna að auðlindum menningar og náttúru landsins. Slíkt stuðlar að fleiri starfstækifærum á landsbyggðinni og að fjölbreyttari og sterkari samfélögum.

Það er engin tilviljun, að í stefnumótandi byggðaáætlun 2018 – 2024 eru megináherslur lagðar á að jafna aðgengi að þjónustu, jafna aðgengi til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggðar. Tillögur um eflingu rannsókna og vísindastarfsemi og um hagnýtingu upplýsingatækni til háskólanáms eru sérlega mikilvægar í þessu samhengi.Þær eru sprottnar af skilningi á mikilvægi menntunar og rannsókna sem aflgjafa til að takast á við þær samfélagslegu áskoranir sem landsbyggðin og samfélagið allt stendur frammi fyrir á komandi árum.

Menntun undirstaða nýsköpunar
Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvægur grunnur fjölbreytts og sjálfbærs atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar. Ekki síst í ljósi þeirra miklu þjóðfélagsumbreytinga sem eru og munu eiga sér stað á komandi árum, m.a. vegna tækniþróunar.

Rannsókna- og þekkingarstarfsemi er mikilvægur hluti af atvinnulífinu. Eðlilegt er að hluti rannsóknastarfsemi fari fram vítt um landið, þar sem viðfangsefnin eru, aðstæður eru hagstæðar og fólk býr að mikilvægri staðþekkingu. Samþætting nýrrar þekkingar við rótgróna svæðisbundna þekkingu skapar hverju svæði sérstöðu, sem styrkir stöðu þess. Aðgengi að innviðabúnaði vísindarannsókna, samstarf við rannsakendur rannsóknastofnana og háskóla er afar mikilvægt.

Starfsfólk Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands tekst á við mörg brýn viðfangsefni samtímans með rannsóknum sínum og þátttöku í ýmiss konar nefndum og ráðum. Má þar nefna faghópa Rammaáætlunar, gerð landsáætlunar í skógrækt, stýrihóp um endurskoðun á stefnu Íslands í vernd líffræðilegrar fjölbreytni og fleira.

Vísindastarf með yngri skólastigum
Mörg rannsóknarsetur vinna með yngri skólastigum að ýmiss konar fræðsluverkefnum. Setrið á Suðurlandi og grunnskóli Bláskógabyggðar á Laugarvatni taka t.d. þátt í samstarfsverkefni um mat á áhrifum loftslagsbreytinga á fuglastofna. Setrið í Bolungarvík kemur að líffræðikennslu 9. og 10. bekkinga í Grunnskóla Bolungarvíkur með því að skipuleggja vettvangs- og rannsóknavinnu þeirra. Setrið á Hólmavík er með þemaverkefni um þjóðtrú og galdra meðal nemenda í grunnskólunum á Hólmavík og Drangsnesi svo fátt eitt sé nefnt. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þessa starfs með ungu fólki. Að vekja spurningar og leita svara með beitingu vísindalegra aðferða er liður í að auka skilning á mikilvægi gagnrýnnar hugsunar og rannsókna.

Setrin hafa lagt ríka áherslu á miðlun rannsókna með ýmsum hætti fyrir utan birtingu vísindagreina, t.a.m. með fyrirlestrahaldi, viðburðum og útgáfu fyrir almenning sem er hluti þeirrar samfélagstengingar sem setrin leggja svo ríka áherslu á. Starfsemi setranna er lyftistöng fyrir þau samfélög sem þau starfa í.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að færslu Breiðdalsseturs til Stofnunar Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í samstarfi við Fjarðabyggð og Náttúrufræðistofnun Íslands. Sú aðgerð er mikilvæg og tryggir áframhaldandi mikilvæga stöðu þess og starfsemi á Breiðdalsvík.
Starfsemi rannsóknasetranna hefur eflst á undanförnum árum og ótvírætt sannað gildi sitt við eflingu rannsókna, háskóla- og atvinnustarfsemi víða um land og aukið tengsl Háskóla Íslands við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga. Setrin eru því mikilvægur hlekkur í þeirri keðju þekkingar- og verðmætasköpunar sem Háskóli Íslands vill styrkja, ekki síst nú á tímum mikilla breytinga í byggða- og atvinnumálum.

Mannauður er dýrmætasta auðlind hverrar þjóðar og það er forgangsverkefni að skapa þær aðstæður að ungt, vel menntað fólk um allt land kjósi að hasla sér völl hér heima og treysta með því undirstöðum samfélagsins. Forsenda þess er traust menntakerfi og samkeppnishæfur vinnumarkaður, sem getur tekist á við síbreytilegar þarfir atvinnu- og þjóðlífs.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira