Hoppa yfir valmynd
20. maí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Aukinn stuðningur við Frú Ragnheiði

Heilbrigðisþjónusta Frú Ragnheiðar - myndMynd: Reykjavíkurdeild Rauða Krossins

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita sex milljóna króna styrk til skaðaminnkunarverkefnis Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Frú Ragnheiðar. Markmið verkefnisins er að liðsinna jaðarsettum einstaklingum eins og þeim sem eru húsnæðislausir og einstaklingum sem nota vímuefni um æð. Styrkurinn kemur til viðbótar níu milljóna styrk sem ráðherra veitti til verkefnisins fyrr á þessu ári þegar úthlutað var styrkjum til félagasamtaka sem starfa að heilbrigðismálum.

Þjónusta Frú Ragnheiðar er veitt í sérútbúnum bíl sem er á ferðinni um höfuðborgarsvæðið sex kvöld í viku. Á hverri vakt starfar hjúkrunarfræðingur og læknir er á bakvakt. Ýmis heilbrigðisþjónusta stendur til boða, svo sem almenn heilsufarsskoðun og ráðgjöf og aðhlynning vegna sára, til dæmis umbúðaskipti, saumataka og sýklalyfjameðferð. Nálaskiptaþjónusta er einnig hluti af verkefninu þar sem fólk sem notar vímuefni um æð getur sótt sér hreinar nálar, sprautur o.fl. sem þarf til að draga úr líkum á smiti og sýkingum, og skilað notuðum búnaði.

Þeim sem nýta sér þjónustu Frú Ragnheiðar hefur fjölgað ár frá ári. Þeir voru rúmlega 500 í fyrra og heildarfjöldi heimsókna nokkuð á fimmta þúsund.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira