Hoppa yfir valmynd
21. maí 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjárfest í framtíðinni

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 21. maí 2020.

Til að stuðla að hagvexti til framtíðar þarf að efla tæknina með vísindum og nýsköpun. Mikilvægt er að skapa framúrskarandi aðstæður til rannsóknar- og nýsköpunarstarfs til að fyrirtækin í landinu sjá hag sinn í að fjárfesta í þekkingarsamfélagi. Í gegnum tíðina hefur rannsóknarviljinn og sannleiksþráin knúið vísindin áfram. Reynsla síðustu vikna hefur sýnt okkur að almenningur ber mikið traust til vísindanna. Því er það vilji ríkisstjórnarinnar að efla enn frekar menntun, rannsóknir og nýsköpun og styðja samkeppnishæfni þjóðarinnar til framtíðar. Sú fjárfesting hefur sjaldan verið mikilvægari. Til að gera samfélagið okkar enn samkeppnisfærara þarf að einblína á einkum þrennt.

Við þurfum að halda áfram að efla menntakerfið okkar, sem hefur unnið þrekvirki á síðustu mánuðum. Hlúið hefur verið að velferð nemenda og reynt að tryggja eins vel og unnt er að þeir geti náð settum markmiðum. Ljóst er að menntakerfið okkar er sterkt. Við verðum að halda áfram í þeirri vegferð og tryggja að menntakerfið veiti einstaklingum tækifæri. Við erum að leggja sérstaka áherslu á verk, iðn- og tækninám til að styrkja færnina á íslenskum vinnumarkaði til framtíðar.

Styrkja þarf rannsóknarinnviði og efla allt vísindastarf til að tryggja enn frekar hágæða rannsóknarumhverfi á Íslandi. Því hefur ríkisstjórnin aukið fjármagn í samkeppnissjóði í rannsóknum. Með þessum fjárfestingum höfum við hækkað úthlutunarhlutfall Rannsóknarsjóðs um rúm 40% og því er úthlutunarhlutfallið 20%. Þetta nær til mannauðs, með auknum styrkjum og atvinnutækifærum. Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkir verkefni þar sem ungir vísindamenn hafa fengið sín fyrstu kynni af þátttöku í vísindastarfi sem kveikt hefur áhuga til framtíðar. Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur vaxið úr 55 milljónum í 455 milljónir í ár. Þetta er gert til að búa til ný tækifæri og virkja þekkingarsköpun.

Fyrirtækin í landinu hafa eflt nýsköpun og verið hreyfiafl framfara. Þess vegna var brýnt að hækka endurgreiðslur til þeirra upp í allt að 35% og þakið hækkað í 1,100 milljónir króna. Fyrirtækjarannsóknir eru verkefnamiðaðri og framleiða oft söluhæfar uppfinningar. Áhersla á þróun og nýsköpun skilar sér margfalt til samfélagsins. Starfsumhverfi fyrirtækja þarf að vera hvetjandi og þau þurfa að vera í stöðu til að fá öfluga einstaklinga til liðs við sig.

Ríki sem hafa markað sér skýra stefnu um að fjárfesta í hugviti, rannsóknum og nýsköpun vegnar vel. Við höfum alla burði til að auka verðmætasköpun sem grundvallast á hugviti. Með því tryggjum við farsælan grunn að sterkara samfélagi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum