Hoppa yfir valmynd
28. maí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Netspjall við hjúkrunarfræðinga verði í boði alla daga frá kl. 8.00 – 22.00

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins stefnir að því tryggja landsmönnum aðgang að ráðgjöf og leiðsögn um heilbrigðiskerfið í gegnum netspjall á www.heilsuvera.is alla daga vikunnar frá kl. átta á morgnana til tíu á kvöldin. Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu stofnunarinnar þessa efnis og ákveðið að veita 30 milljónir króna á ársgrundvelli til verkefnisins í tvö ár. Netspjall heilsuveru hefur gefið góða raun á tímum COVID-19 og hefur þeim sem nýta sér þessa þjónustu fjölgað jafnt og þétt.

Það er mikilvægt að tryggja að jákvæð reynsla af breyttri þjónustu sem innleidd var vegna COVID-19 glatist ekki, heldur verði nýtt og þróuð áfram til að bæta þjónustu við notendur“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra: „Þetta er enn eitt verkefnið sem styður eflingu heilsugæslunnar og hlutverk hennar sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Þetta er einnig mikilvægur liður í því að byggja upp öfluga gagnvirka rafræna þjónustu, virkja notendur og bæta aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, líkt og eru meðal markmiða heilbrigðisstefnu til ársins 2030“ segir ráðherra. 

Öflugur vegvísir og upplýsingaveita fyrir heilbrigðiskerfið

Vefsíðan Heilsuvera er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og embættis landlæknis. Markmiðið er að koma á framfæri margvíslegri fræðslu og þekkingu um heilbrigðismál og áhrifaþætti heilbrigðis. Heilsuvera veitir þríþætta þjónustu. Í fyrsta lagi er það fræðsluhlutinn sem er öllum opinn, í öðru lagi einstaklingsbundin þjónusta og aðgangur að heilbrigðisupplýsingum á mínum síðum sem er háð rafrænni auðkenningu notenda og í þriðja lagi er netspjall heilsuveru þar sem allir sem hafa netaðgang geta átt í beinum samskiptum við hjúkrunarfræðing til að fá ýmsar upplýsingar og leiðbeiningar.

Yfir 90% notenda ánægðir með þjónustuna

Netspjall heilsuveru hefur lengst af verið opið 4 – 8 klukkustundir á dag en þegar fyrsti einstaklingurinn greindist með COVID-19 hér á landi ákváðu stjórnendur heilsugæslunnar að hafa netspjallið opið frá kl. 8.00 – 22.00 alla daga vikunnar. Í mars 2020 áttu notendur hátt í 16.000 samskipti við hjúkrunarfræðinga í gegnum netspjallið og lýstu 93% notendanna ánægju með þjónustuna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum