Hoppa yfir valmynd
29. maí 2020 Félagsmálaráðuneytið

Aukinn stuðningur við frístundir 12-16 ára barna í sumar

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að styðja fjárhagslega við þau sveitarfélög sem hyggjast auka við frístundarstarfsemi barna í viðkvæmri stöðu í sumar, umfram hefðbundið sumarstarf. Alls verður 75 milljónum króna varið til verkefnisins. Aðgerðirnar eru hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19, sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu.

Sérstaklega verður horft til aldurshópsins 12 til 16 ára, og áhersla lögð á að ná til þess hóps barna sem hvað síst sækja hefðbundið frístundarstarf. Einnig eru líkur á að aldurshópurinn 12-16 ára sé í hvað minnstri virkni yfir sumartímann og í aukinni áhættu hvað varðar til dæmis áhættuhegðun eða kvíða.

Sveitarfélög geta sótt um ákveðið fjármagn til félagsmálaráðuneytisins til að efla eða hefja verkefni af þessu tagi. Þau sveitarfélög sem óska eftir fjármagni skulu senda inn umsókn í gegnum eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Hægt er að nálgast eyðublaðið hér. Umsóknarfrestur er til og með 2. júní næstkomandi.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Þau börn og unglingar sem halda ekki mikilli virkni yfir sumartímann eru í aukinni hættu á að sæta vanrækslu, félagslegri útilokun og ofbeldi eða neyta fíkniefna vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi vegna Covid-19 faraldursins. Það er því áríðandi að við tryggjum og eflum virkni, vellíðan og félagsfærni barna og það er einmitt markmiðið með þessum aðgerðum.”

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira