Hoppa yfir valmynd
3. júní 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Loftslagssjóður úthlutar 165 milljónum króna til 32 verkefna

Frá kaffispjalli ráðherra og formanns Loftslagssjóðs með styrkhöfum í dag. - mynd

Loftslagssjóður hefur úthlutað 165 milljónum króna til 32 verkefna í sinni fyrstu úthlutun. Af því tilefni buðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Hildur Knútsdóttir, formaður stjórnar Loftslagssjóðs handhöfum styrkjanna til kaffispjalls í ráðuneytinu í dag.

Hlutverk Loftslagssjóðs er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Að þessu sinni voru 10 nýsköpunarverkefni styrkt og 22 kynningar- og fræðsluverkefni.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra: „Það eru tímamót að nú sé í fyrsta skipti verið að úthluta styrkjum úr Loftslagssjóði til fræðslu og nýsköpunar í loftslagsmálum og það er virkilega gaman að sjá hversu fjölbreytt og flott verkefnin eru. Með þessu leitum við lausna með nýsköpun og gefum hugmyndauðgi og framsýni byr undir báða vængi.

Hildur Knútsdóttir, formaður stjórnar Loftslagssjóðs: „Það var mjög ánægjulegt að sjá hvað komu margar umsóknir. Það er greinilega mikil gerjun í loftslagsmálunum eins og við mátti búast. Umsóknirnar voru mjög fjölbreyttar og það var upplífgandi að sjá hvað margir eru að vinna í lausnum.“

Þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er úr Loftslagssjóði en umsóknarfrestur rann út þann 30. janúar s.l. Alls bárust 203 gildar umsóknir og var heildarupphæð umsókna um 1,3 milljarðar. Sem fyrr segir voru 32 verkefni styrkt í þessari úthlutun eða um 16% umsókna. 

Sjóðurinn heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra og er í umsjón Rannís.

Frétt og listi yfir styrkþega á vef Rannís


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum