Hoppa yfir valmynd
3. júní 2020 Félagsmálaráðuneytið

Umönnunargreiðsla vegna fatlaðra og langveikra barna samþykkt

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur undirritað breytingar á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.  Er um að ræða aðgerð sem er hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19, sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu.

Samkvæmt reglugerðinni verður heimilt að greiða framfærendum barna, sem voru með gilt umönnunarmat á tímabilinu 16. mars til 4. maí 2020, eingreiðslu sem nemur 25% af fullum umönnunargreiðslum fyrir einn mánuð vegna aukinnar umönnunar. Skilyrði fyrir auknum greiðslum er að Covid-19 faraldurinn hafi valdið því að þjónusta á borð við skóla eða dagvistun hafi legið niðri, eða að barn hafi ekki getað sótt skóla eða dagvistun vegna faraldursins. Hið sama gildir ef framfærandi hefur verið heima með barni vegna undirliggjandi vanda þess, sem landlæknir hefur skilgreint í áhættuhópi fyrir alvarlegri sýkingu vegna Covid-19.

Þá er það skilyrði eingreiðslunnar að slíkar aðstæður hafi varað í a.m.k. 15 virka daga á tímabilinu. Sótt er um eingreiðsluna hjá Tryggingastofnun ríkisins og er umsóknarfrestur til 1. janúar 2021. Úrræðið er ekki tekjutengt. Greiðslan er undanþegin skattskyldu og hefur ekki áhrif á aðrar bætur. 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Með þessari breytingu erum við að koma til móts við þá sem þurfa að sinna aukinni umönnun fatlaðra og langveikra barna þar sem ytri úrræði hafa legið niðri vegna Covid-19 faraldursins. Við vitum að álagið á umönnunaraðila hefur verið mikið og við höfum frá því við hófum baráttuna við Covid-19 lagt áherslu á það að styðja viðkvæma hópa sem verða fyrir miklum röskunum sökum hans.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira