Hoppa yfir valmynd
8. júní 2020 Forsætisráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Breytingar á reglum um komur ferðamanna til Íslands

Breytingar verða á reglum um komur ferðamanna til Íslands frá og með 15. júní næstkomandi. Er það í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.

Farið verður af stað með ýtrustu aðgát til þess að stofna ekki í hættu þeim árangri sem náðst hefur við að ná tökum á farsóttinni af völdum COVID-19. Meginbreytingin er sú að farþegum, bæði þeim sem hér eru búsettir, og öðrum, gefst kostur á að fara í sýnatöku við komuna til landsins í stað tveggja vikna sóttkvíar. Ef niðurstaða sýnatöku er neikvæð þurfa þeir ekki að fara í tveggja vikna sóttkví. Börn, fædd 2005 og síðar, verða undanþegin kröfum um sóttkví og skimun.

Sóttvarnalæknir undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra ber meginábyrgð á því verkefni að undirbúa skimun á landamærum. Þá koma lögregluyfirvöld með virkum hætti að framkvæmd verkefnisins vegna landamæraeftirlits og vinnu smitrakningarteymis almannavarna.

Framkvæmdin verður með þeim hætti að áður en farþegi leggur af stað til Íslands ber honum að fylla út forskráningaform með helstu upplýsingum. Á Keflavíkurflugvelli og annars staðar þar sem farþegar koma til landsins mun heilsugæslan sjá um sýnatökur. Farþeginn fer síðan á sinn áfangastað og er ráðlagt að fara varlega uns niðurstöður eru tilkynntar með rafrænum hætti.

Greining sýna verður fyrst um sinn hjá Íslenskri erfðagreiningu sem hefur boðist til að lána tæki sín og aðstöðu. Í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu mun sýkla- og veirufræðideild Landspítalans koma að þeim mælingum en einbeita sér að því að greina klínísk sýni og vera í viðbragðsstöðu vegna þess. Samhliða er fyrirhugað að efla tækjabúnað og aðstöðu hjá sýkla- og veirufræðideild þannig að hún geti annað verkefni af þessum toga.

Komi smit í ljós hjá komufarþega fer af stað hefðbundið ferli, hringt er í viðkomandi, hann boðaður í blóðprufu m.a. til að ganga úr skugga um hvort hann sé smitandi og hvort grípa þurfi þá til ráðstafana varðandi smitrakningu og fjarheilbrigðisþjónustu.

Undirbúningur skimunar á landamærum er í fullum gangi í samráði við Isavia, landamæraeftirlit og heilsugæslu víða um land. Áætlað er að unnt sé að greina að hámarki 2000 sýni á sólarhring, eins og staðan er nú að minnsta kosti. Það verður því takmarkandi þáttur og þurfa þeir sem flytja farþega til landsins að laga sig að því.

Lagaheimild til gjaldtöku vegna sýnatökunnar er í lögum um sjúkratryggingar og mun heilbrigðisráðherra gefa út reglugerð um gjaldtökuna og fleiri atriði sem varða sýnatökuverkefnið á næstu dögum.

Þá hefur sóttvarnalæknir birt leiðbeiningar til ferðamanna og eru þær aðgengilegar á vef landlæknis. Í undirbúningi eru leiðbeiningar til Íslendinga sem koma til landsins því reynslan sýnir að smitleiðir eru gjarnan innan fjölskyldu eða vinahópa.

Hvað varðar ytri landamæri Schengen-svæðisins hafa íslensk stjórnvöld innleitt ferðatakmarkanir ESB og Schengen. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvort að þær takmarkanir verði framlengdar til 1. júlí nk. eins og komið hefur til umræðu.

Leiðbeiningar sóttvarnalæknis til ferðamanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum