Hoppa yfir valmynd
10. júní 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Auka þarf alþjóðlega samvinnu til að stuðla að efnahagsbata í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. - myndGolli

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sat í dag fjarfund ráðherra á vegum OECD þar sem fjallað var um efnahagsáhrif heimsfaraldurs kórónuveiru. Fundinn sátu ráðherrar ríkja OECD, Evrópusambandsins og Kosta-Ríka, auk fulltrúa alþjóðasamtaka verkalýðsfélaga (TUAC) og atvinnurekenda (BIAC) í OECD-löndunum en þar var sérstök áhersla lögð á að ræða hvernig auka megi alþjóðlega samvinnu hjá hinu opinbera og í einkageiranum til að stuðla að efnahagsbata í kjölfar faraldursins.

Traust á aðgerðirnar á Íslandi

Bjarni sagði á fundinum að kórónuveirufaraldurinn hefði haft umtalsverð neikvæð áhrif á íslenskan efnahag, líkt og önnur ríki OECD. „Í kjölfar þess að höftum vegna faraldursins var aflétt höfum við hins vegar séð gríðarlega aukningu innlendrar eftirspurnar. Hún er drifin áfram af trausti á þær umfangsmiklu aðgerðir sem Íslandi lagði í gegn veirunni, sem hafa skilað árangri,“ sagði Bjarni og bætti við að góð skuldastaða ríkissjóðs hefði gert Íslandi kleift að beita umfangsmiklum aðgerðum í ríkisfjármálunum til þess að bregðast við áhrifum af völdum Covid-19.

Bjarni sagði mikilvægt að auka alþjóðlega samvinnu við afnám ferðahindrana í kjölfar heimsfaraldursins. „Við þurfum einnig að koma á fót alþjóðlegu kerfi sem tryggir samhæfð viðbrögð á alþjóðavettvangi við aðrar áskoranir í framtíðinni sem hafa áhrif á alþjóðasamfélagið.“

Áhersla á nýsköpun, rannsóknir og þróun

Á næstu mánuðum væri það keppikefli íslenskra stjórnvalda að sporna gegn atvinnuleysi með því að skapa störf og auka sveigjanleikja á vinnumarkaði. Stóraukið atvinnuleysi í kjölfar heimsfaraldursins, á Íslandi sem og annars staðar, væri sérstakt áhyggjuefni þegar kæmi að ungu fólki. „Við verðum að örva hagkerfið svo þetta fólk finni störf við hæfi, en á Íslandi er sérstök áhersla lögð á að styrkja nýsköpun, rannsóknir og þróun.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira