Hoppa yfir valmynd
12. júní 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Samráð um endurskoðun byggðaáætlunar hafið

Frá samráðsfundi ráðuneytisins um endurskoðun byggðaáætlunar í Hafnarborg. - mynd

Undirbúningur að endurskoðun byggðaáætlunar hófst formlega í gær á samráðsfundi sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hélt með byggðamálaráði, landshlutasamtökum sveitarfélaga, stýrihópi stjórnarráðsins um byggðamál og Byggðastofnun. Við þetta tækifæri opnaði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, samráðsvettvang á vef Byggðastofnunar þar sem allir geta lagt fram hugleiðingar og hugmyndir um mótun, form, inntak og framkvæmd byggðaáætlunar.

Núverandi byggðaáætlun var samþykkt samhljóða í júní 2018 en lögum samkvæmt skal hún endurskoðuð að lágmarki á þriggja ára fresti. Á næsta vori verða því liðin þrjú ár frá samþykkt hennar. Við gerð gildandi áætlunar var haft víðtækt samráð við fjölda haghafa og var m.a. efnt til opinna funda í öllum landshlutum ásamt því að allan vinnslutíma áætlunarinnar var opin samráðsgátt á vef Byggðastofnunar. 

Sigurður Ingi sagði í ávarpi á samráðsfundinum í gær að mikill einhugur hafi ríkt um að samþykkja gildandi byggðaáætlun en það væri alls ekki sjálfgefið. „Ég tel að það megi þakka miklu og virku samráði sem haft var við vinnuna frá upphafi til enda. Það samráð náði til allra landsmanna, þó sérstök áhersla hafi verið lögð á samráð við sveitarfélögin í gegnum landshlutasamtökin og ráðuneytin í gegnum stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál,“ sagði hann.

Ráðherra sagði mikilvægt að halda áfram virku samtali um byggðamálin og velta fyrir sér hvernig til hefði tekist í framkvæmd byggðaáætlunar. „Hvar höfum við staðið okkur vel og hvað mætti betur fara? Hvað eigum við að taka með okkur áfram í nýja byggðaáætlun og hvað eigum við að skilja eftir? Er byggðaáætlun að taka nægt tillit til annarra opinberra stefna og áætlana eða erum við kannski að gera of mikið úr því að tengja við aðrar stefnur?,“ sagði Sigurður Ingi á fundinum og beindi spurningum sínum til fundargesta um land allt – og þeirra sem nú eiga kost á að taka þátt í samráði á vef Byggðastofnunar.

Kynja- og jafnréttissjónarmið að leiðarljósi

Sigurður Ingi greindi frá því á fundinum að samhliða endurskoðuninni verði unnið tilraunaverkefni með forsætisráðuneytinu þar sem sérstaklega verði hugað að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Gert væri ráð fyrir því að það verði meginregla að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við allar opinberar áætlanir. Hann sagði ánægjulegt að byggðaáætlun hafi orðið fyrir valinu í þessu tilraunaverkefni. Vinnan muni fara fram undir leiðsögn sérfræðings forsætisráðuneytisins í kynjasamþættingu.

Aukið hlutverk Byggðastofnunar á sviði sveitarstjórnarmála

Sigurður Ingi sagði að samstarf sveitarfélaga og Byggðastofnunar um framkvæmd byggðaáætlunar hafi verið til mikillar fyrirmyndar. Byggðastofnun hafi einnig nýlega verið fengin til að gera greiningu á áhrifum Covid-19 faraldursins á sveitarfélögin. Ráðherra sagði fulla ástæðu til að íhuga hvort auka mætti hlutverk Byggðastofnunar á sviði sveitarstjórnarmála, t.d. varðandi rannsóknir og greiningar. „Það gæti styrkt enn betur samspilið á milli þróunar byggðamála almennt og þessa mikilvæga stjórnsýslustigs, sveitarstjórnarstigsins,“ sagði Sigurður Ingi á samráðsfundinum í gær.

Línur lagðar á samráðsfundi

Tilgangurinn með samráðsfundinum, sem jafnframt var fjarfundur var að safna efnivið í stöðumat fyrir núverandi byggðaáætlun, svokallaða grænbók, og fá fram hugmyndir um það hvert á að stefna með nýrri stefnumótandi byggðaáætlun til fimmtán ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

Á fundinum fjallaði Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, sérfræðingur hjá Nordregio, um byggðastefnu nágrannaríkja okkar og um árangur þeirra. Einnig fluttu þeir Snorri Björn Sigurðsson, fv. forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar og Sveinn Margeirsson, ráðgjafi, erindi á fundinum. Loks tóku til máls framkvæmdastjórar eða formenn allra landshlutasamtaka og deildu hugleiðingum sínum um árangur í byggðamálum og lýstu sýn sinni um næstu skref. Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður byggðamálaráðs, flutti samantekt í lok fundar en fundarstjóri var Sigríður Elín Þórðardóttir, forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar

 
  • Frá samráðsfundi ráðuneytisins um endurskoðun byggðaáætlunar í Hafnarborg.
  • Frá samráðsfundi ráðuneytisins um endurskoðun byggðaáætlunar í Hafnarborg.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira