Hoppa yfir valmynd
16. júní 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðuneytið styrkir námskeið í umönnun ætluð atvinnuleitendum

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita fjárstuðning sem gerir kleift að bjóða fólki í atvinnuleit upp á fagnámskeið í umönnun. Námskeiðin verða haldin í samstarfi við stéttarfélagið Eflingu og Mími – símenntun. Megintilgangurinn er að fjölga starfsfólki í umönnunarstörfum og að efla hópinn faglega.

Fagnámskeið í umönnun eru haldin reglulega en hingað til hefur skipulag og framkvæmd þeirra einskorðast við ófaglært starfsfólk sem er í starfi á þessu sviði. Fagnámskeiðin eru undanfari náms í  Félagsliðabrú, þau eru kostuð af stéttarfélögunum hlutaðeigandi starfsfólks og tekur fólk þau samhliða starfi.

Nýmælið sem felst í verkefninu sem hér um ræðir er að opna námskeið sem þessi fyrir fólk sem er án atvinnu. Margir hafa misst vinnuna að undanförnu vegna COVID-19 og eru vonir bundnar við að fólk úr þeim hópi kunni að sjá í þessu tækifæri til að breyta um starfsvettvang. Lengi hefur verið skortur á starfsfólki í umönnunarstörf og þörfin er mikil og vaxandi eftir því sem landsmönnum fjölgar og þjóðin eldist.

Með styrk heilbrigðisráðuneytisins verður opnað á námskeið sem þessi fyrir fólk án atvinnu sem hefur áhuga á að starfa við umönnun. Undirbúningur hefur staðið yfir um skeið með Eflingu stéttarfélagi og Mími – símenntun. Efling hefur tekið að sér að kynna námskeiðin fyrir fólki í atvinnuleit og Mímir mun sjá um skipulag og framkvæmd námskeiðanna.

Um námið

Námskeiðin taka mið af námskrá sambærilegra fagnámskeiða fyrir starfsmenn í félags- og heilbrigðisþjónustu. Námskráin er vottuð af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins og mögulegt er að meta námið til eininga á framhaldsskólastigi. Námskeiðið telur 82 klukkustundir með leiðbeinanda, auk 20 klukkustunda í starfsþjálfun fyrir þá sem ekki búa að starfsreynslu við umönnun. Meðal námsþátta eru aðstoð og umönnun, skyndihjálp, sjálfstyrking og samskipti, líkamsbeiting og fleira.

Stefnt er að því að efna til fagnámskeiðs í umönnun fyrir fólk í atvinnuleit í ágúst. Hámarksfjöldi þátttakenda á námskeiðinu verður 18 manns. Ef eftirspurn verður mikil er stefnt að öðru námskeiði síðar á árinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira