Hoppa yfir valmynd
19. júní 2020 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Ríkisstjórnin styrkir námskeið í samningatækni og átakafræðum

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita eina milljón króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til Höfða friðarseturs við Háskóla Íslands. Fjárveitingin verður nýtt til námskeiðshalds í samningatækni og átakafræðum, að tillögu forsætisráðherra og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í samstarfi við Davis Center við Harvard háskóla.

Námskeiðið var fyrst haldið í ágúst í fyrra við góðan orðstír og var ákveðið að halda samstarfi um þróun frekari verkefna og námskeiðshalds áfram. Námskeiðunum er einkum ætlað að stuðla að auknum áhuga og þjálfun í flóknum samningaviðræðum tengdum afvopnunarmálum og byggja upp alþjóðlegt tengslanet sérfræðinga.

Gert er ráð fyrir þremur námskeiðum á árunum 2020 og 2021. Hið fyrsta fer fram með fjarfundabúnaði í ágúst næstkomandi en seinni tvö námskeiðin verða haldin í Reykjavík í janúar og maí á næsta ári. Þátttakendur eru valdir úr hópi umsækjenda frá löndum beggja vegna Atlantshafsins þ.m.t. nemendur úr Háskóla Íslands, Harvard, Princeton og Yale. Þá taka þátt ungir sérfræðingar frá alþjóðastofnunum auk innlendra sérfræðinga sem starfa í utanríkisráðuneytinu. Sökum sérstöðu Íslands í verkefninu eru tvö sæti tryggð þátttakendum frá Íslandi á hverju námskeiði.

Davis Center við Harvard háskóla leiðir þróunarvinnu í tengslum við námskeiðin en undanfarið hafa heimsþekktar stofnanir á sviði afvopnunarmála bæst í hóp samstarfsaðila. Þær eru Woodrow Wilson International, Moscow Institute of International Relations, Russian Higher School of Economics og Peace Research Institute í Frankfurt.

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
4. Menntun fyrir öll
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum