Hoppa yfir valmynd
23. júní 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lestrarferðalög í sumar

Rannsóknir sýna að afturför í lestrarfærni getur orðið í sumarfríum nemenda því fyrri þekking og færni gleymist sé henni ekki haldið við. Yngstu lesendurnir, nemendur í 1.-4. bekk, eru sérstaklega viðkvæmir fyrir slíkum sumaráhrifum en einnig nemendur sem glíma við lestrarerfiðleika, búa við litla lestrarmenningu heima fyrir eða eiga annað móðurmál en íslensku.

Slík afturför getur numið einum til þremur mánuðum í námsframvindu, hjá barni í 6. bekk sem ekki les yfir sumartímann getur uppsöfnuð afturför því numið allt að einu og hálfu skólaári.

Lítið þarf þó til þess að nemendur viðhaldi færni sinni eða taki framförum. Rannsóknir benda til þess að koma í veg fyrir afturför nægir að lesa að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í um það bil 15 mínútur í senn. Best er þó að lesa í 15 mínútur á hverjum degi og velja þá hæfilega krefjandi lesefni á áhugasviðinu. Skemmtilegar bækur og hæfilega flóknir textar eru besta hvatningin fyrir unga lesendur. Hver einasti texti er tækifæri, hvort sem hann er í bók, á blaði eða á skjá. Hæfilega krefjandi textar geta auk þess aukið orðaforða og lesskilning.

„Allur lestur skiptir máli og ég hvet alla til þess að njóta þess að lesa í sumar. Það var magnað að fylgjast með þátttöku fólks á öllum aldri í þjóðarátakinu Tími til að lesa, þegar við settum heimsmet í lestri meðan COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst. Sumarið er líka frábær tími fyrir lestur, sérstaklega fyrir yngstu kynslóðina en líka aðrar mikilvægar lestrarfyrirmyndir. Því ættu allir að muna eftir lesefni, til dæmis þegar pakkað er niður fyrir ferðalög sumarsins,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Vakin er athygli á Lestrarlandakortinu og Læsisvefnum þar sem finna má hvetjandi hugmyndir um sumarlestur ungra lesenda. Markmið Lestrarlandakortsins er bæði að hvetja til lestrar en einnig að kynna mismunandi tegundir bóka. Upplýsingar um það verkefni má finna á vef Menntamálastofnunar.

Á bókasöfnum landsins má finna spennandi og áhugavert efni fyrir alla aldurshópa. Bókasafnskort eru ókeypis fyrir lesendur yngri en 17 ára.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum