Hoppa yfir valmynd
24. júní 2020 Innviðaráðuneytið

Nýjar og endurskoðaðar áætlanir um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa verið endurskoðuð í takt við nýja áætlun um tekjur sjóðsins. Endurmeta þurfti tekjur sjóðsins vegna efnahagslegra áhrifa af Covid-19 faraldrinum. Hin nýja áætlun um tekjur sjóðsins gerir ráð fyrir að tekjur hans lækki um tæpa 3,8 milljarða kr. 

Mest lækka þau framlög sem byggja á skatttekjum ríkissjóðs. Það eru framlög vegna lækkandi tekna af fasteignaskatti, útgjaldajöfnunarframlög og almenn framlög vegna málefna fatlaðs fólks en þau síðastnefndu byggja bæði á framlögum vegna skatttekna ríkissjóðs og tekjum sjóðsins af álagningarstofni útsvars 2020.

Samkvæmt breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 sem samþykkt var á Alþingi 11. maí sl. er Jöfnunarsjóði heimilt að nýta allt að 1.500 m.kr. úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á þessu ári til mótvægisaðgerða vegna lækkunar tekna Jöfnunarsjóðs á árinu 2020. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um ráðstöfun þess fjármagns en gert er ráð fyrir því að ákvörðun um ráðstöfun fjármagnsins verði tekin í haust.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur samþykkt eftirfarandi tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um áætlaðar úthlutanir á grundvelli endurmats á tekjum Jöfnunarsjóðs.

Framlög til sveitarfélaga til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts

Ráðgjafarnefndin leggur til að framlög til sveitarfélaga til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts sbr. reglugerð nr. 80/2001 með síðari breytingum, nemi samtals um 4.122,9 m.kr. á árinu. Um 69% af áætlun um úthlutun framlaga ársins komu til greiðslu mánuðina febrúar til júní eða samtals um 2.825,1 m.kr. Áætlað uppgjör framlaganna, sem nemur 1.297,7 m.kr., fer fram með þremur jöfnum greiðslum mánuðina júlí, ágúst og september, 432,6 m.kr. í hvert sinn.

Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að framlög ársins næmu 4.956,4 m.kr. og nemur lækkun framlaganna því 833 m.kr.

Útreikningur framlaganna byggist á upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands um álagningarstofna fasteignaskatts í sveitarfélögum 31. desember 2019, sem gilda fyrir árið 2020. Við útreikning framlaganna er jafnframt tekið mið af álagningarprósentum fasteignaskatts í sveitarfélögum á árinu 2020.

Útgjaldajöfnunarframlög

Farið hefur fram endurskoðun á áætlaðri úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga fyrir árið 2020, skv. 14. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga nr. 1088/2018. Við endurskoðunina var tekið mið af leiðréttum hámarkstekjum á íbúa í hverju sveitarfélagi og íbúafjölda í sveitarfélögum 1. janúar 2020.

Ráðgjafarnefndin leggur til að áætluð heildarúthlutun útgjaldajöfnunarframlaga á árinu nemi 8.250 m.kr. Þar af nema framlög vegna skólaaksturs úr dreifbýli 575 m.kr. Í desember koma til úthlutunar og greiðslu viðbótarframlög að fjárhæð allt að 175 m.kr. vegna íþyngjandi kostnaðar sveitarfélaga af skólaakstri úr dreifbýli á árinu 2020 umfram tekjur. Jafnframt er áætlað að úthlutað verði 50 m.kr. vegna akstursþjónustu fyrir fatlað fólk á árinu 2020. Uppgjör framlaganna fer fram í desember.

Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að útgjaldajöfnunarframlög ársins myndu nema 10.400 m.kr. og nemur lækkun framlaganna því 2.150 m.kr. 

Almenn framlög vegna málefna fatlaðs fólks

Þá leggur ráðgjafarnefndin til að ráðstöfunarfjármagn Jöfnunarsjóðs til greiðslu almennra framlaga vegna þjónusut við fatlað fólk nemi samtals um 16.870 m.kr. á árinu, sem er lækkun um 600 m.kr. frá fyrri áætlun. 

Breytingar milli fyrstu og annarrar áætlunar 2020 byggja á uppfærðum upplýsingum sem borist hafa frá þjónustusvæðum og samkeyrslu við gögn Þjóðskrár Íslands. Dæmi um slíkar breytingar eru flutningur á lögheimili þeirra sem þiggja þjónustu, andlát og uppfærðar kostnaðarupplýsingar. 

Stefnt er að því að birta nýja áætlun í nóvember 2020. 

Almenn jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla

Endurskoðun á áætlaðri úthlutun almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla fyrir árið 2020 hefur farið fram, skv. 3. gr. reglugerðar um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla nr. 351/2002. Við endurskoðunina var tekið mið af endanlegum útsvarsstofni sveitarfélaga vegna tekna ársins 2018 og áætlun um útsvarstekjur sveitarfélaga á árinu 2019. Jafnframt var áætlunin uppfærð hvað varðar fjölda íbúa á grunnskólaaldri í hverju sveitarfélagi 1. janúar 2020.

Að tillögu ráðgjafarnefndar nemur áætluð heildarúthlutun almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla í ár 9.660 m.kr. Þar af eru leiðréttingar á framlögum ársins 2018 að fjárhæð 60 m.kr.

Framlag vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál

Ráðgjafarnefndin leggur til að úthlutun framlaga vegna íslenskukennslu fyrir nemendur með íslensku sem annað tungumál á árinu 2020, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 351/2002, nemi alls 469 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir að áætlunin taki frekari breytingum. Framlögin eru greidd mánaðarlega með jöfnum greiðslum.

Framlög til eflingar tónlistarnámi 2020-2021

Ráðgjafarnefndin leggur til áætlaða úthlutun framlaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda skólaárið 2020-2021 að fjárhæð 555 m.kr. en úthlutunin fer fram á grundvelli 2. mgr. 1. gr. reglna um framlög vegna hljóðfæranáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi.

Framlög vegna jöfnunar langtímaleigusamninga

Ráðgjafarnefndin leggur loks til að úthluta 91,1 m.kr. til sveitarfélaga og þjónustusvæða vegna málefna fatlaðs fólks. Framlögin koma til móts við kostnað sveitarfélaga við langtímaleigusamninga á húsnæði sem gerðir voru áður en málaflokkur fatlaðs fólks var fluttur frá ríki til sveitarfélaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum