Hoppa yfir valmynd
24. júní 2020 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra Norðurlandanna fögnuðu kjöri Noregs í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Frá vinstri eru Auðunn Atlason sendiherra, Diljá Mist Einarsdóttir aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Einar Gunnarsson sendiherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. - myndSøren Sigfusson/norden.org

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittust á fjarfundi í dag þar sem þeir byrjuðu á því að fagna kjöri Noregs til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þeir lögðu áherslu á mikilvægi þess að Norðurlöndin hefðu þar setu til að geta stuðlað að framgangi þeirra grunngilda sem löndin standa fyrir eins og mannréttindamál.

Þá ræddu þeir áhrif heimsfaraldursins á þróun heimsmála en frá því að ráðherrarnir fimm hittust síðast hefur náðst umtalsverður árangur og veigamikil skref verið stigin til að lyfta takmörkunum á samskiptum fólks og opna landamæri ríkjanna fyrir ferðamönnum. Áhyggjum valdi þó að nýr tilfelli hafi greinst í Kína að undanförnu sem sýni vel að alltof snemmt sé að lýsa yfir fullnaðarsigri yfir veirunni.

Rætt var um stöðuna í Mið-Austurlöndum en ráðherrarnir voru sammála um að yfirlýst áform ísraelskra stjórnvalda um innlimun á hluta svæða Palestínumanna yllu áhyggjum. „Innlimun brýtur í bága við alþjóðalög og dregur mjög úr líkum á því að tveggja ríkja lausnin á deilum Ísraela og Palestínumanna nái nokkurn tímann fram að ganga. Norðurlöndin deila mjög sjónarmiðum í þessu máli og allir voru sammála um að brýnt væri að ísraelsk stjórnvöld fengju skýr skilaboð um að áform þeirra væru óviðunandi,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Að lokum var gerði Guðlaugur Þór grein fyrir því að skýrslu sem Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur verið að vinna fyrir Norðurlöndin fimm um samstarf ríkjanna og styrkingu þess, væri að vænta á næstunni en hún verður á dagskrá fundar utanríkisráðherra sem fram fer í Kaupmannahöfn í september.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum