Hoppa yfir valmynd
25. júní 2020 Utanríkisráðuneytið

Kafbátaeftirlitsæfingin Dynamic Mongoose 2020

Frá Dynamic Mongoose 2017 - myndMynd: Landsbjörg

Kafbátaeftirlitsæfingin Dynamic Mongoose 2020 verður haldin hér á landi dagana 29. júní til 10. júlí á vegum Atlantshafsbandalagsins. Auk Íslands taka sex ríki Atlantshafsbandalagsins þátt í æfingunni; Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kanada, Noregur og  Þýskaland. Þau leggja til fimm kafbáta, fimm herskip og fimm kafbátaleitarflugvéla.

Æfingar af þessu tagi hafa verið haldnar árlega undan ströndum Noregs frá árinu 2012 nema þegar hún fór fram hér á landi árið 2017. Ákveðið hefur verið að framvegis verði æfingarnar haldnar til skiptis á Íslandi og í Noregi. Íslendingar leggja til aðstöðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og Landhelgisgæsla Íslands tekur þátt í æfingunni, m.a. með stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli auk þess sem varðskip og þyrlur munu taka þátt í þeim hluta æfingarinnar sem tengjast hefðbundnum verkefnum stofnunarinnar.

Fyrstu skipin sem taka þátt í æfingunni koma til hafnar í dag og önnur leggjast að bryggju á morgun vegna undirbúnings. Þau halda svo til æfingarinnar eftir helgi. Komur skipanna hafa verið skipulagðar í samráði við íslensk heilbrigðisyfirvöld og viðeigandi sóttvarnaráðstafanir gerðar.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum