Hoppa yfir valmynd
26. júní 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Starfsánægja, skólabragur og endurgjöf: Niðurstöður TALIS menntarannsóknar á unglingastigi

TALIS er alþjóðleg rannsókn þar sem skoðuð eru viðhorf kennara og skólastjórnenda til starfa sinna en hún er framkvæmd reglulega á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD). Í rannsókninni eru kennarar og skólastjórar í 48 ríkjum meðal annars spurðir um starfsánægju, skólabrag, ábyrgð og mat á störfum kennara. Hér á landi voru allir skólastjórar og kennarar á unglingastigi grunnskóla í úrtaki rannsóknarinnar og var svarhlutfall um 75%. Meðal helstu niðurstaðna eru þessar:

• Mun hærra hlutfall kennara hér og á Norðurlöndum, hefur aldrei fengið endurgjöf frá ytri aðilum, skólastjórnendum og samstarfsmönnum í samanburði við OECD og TALIS-lönd að meðaltali. Þó eru vísbendingar um að endurgjöf sé meiri nú hér á landi en hún var árið 2013. Með endurgjöf er átt við almenn samskipti um kennslu viðkomandi, sem byggð er á skoðun á starfinu (t.d. með því að fylgjast með kennslu, ræða námsefni, kennsluaðferðir eða einkunnir nemenda). Endurgjöf getur verið veitt gegnum óformleg samtöl eða verið hluti af formlegu starfsmati.

• Á Norðurlöndum eru gögn sem byggja á beinni athugun á kennslu kennarans í bekknum eða á grundvelli niðurstaðna á árangursmati nemenda (í samræmdum prófum, verkefnum eða öðru námsmati) algengust sem grundvöllur endurgjafar frá skólastjóra eða stjórnunarteymi. Þó hefur aðeins rétt um fjórðungur fengið endurgjöf á grundvelli slíkra gagna.

• Starfsmannavelta í íslenskum grunnskólum er svipuð og á Norðurlöndunum en lægri en að jafnaði í aðildaríkjum OECD.

• 55% íslenskra kennara kveðst upplifa streitu í vinnunni og er það ívið hærra hlutfall en í samanburðarlöndunum. Hérlendis tengist streita þó síður álagi vegna undirbúnings kennslu eða yfirferðar á prófum og verkefnum, heldur fremur breytilegum kröfum ríkis og sveitarfélaga og álagi vegna fjarvista kennara.

• 86% kennarar segja anda samvinnu og gagnkvæms stuðning ríkja meðal starfsfólks skólanna og 85% svara því til að kennarar séu séu hvattir til þess að sýna frumkvæði.

Á meðal markmiða rannsóknarinnar er að safna sambærilegum gögnum um menntakerfi þátttökulandanna, um námsumhverfi og starfsaðstæður í skólum í hverju landi, með því að leggja spurningalista fyrir kennara og skólastjóra, greina gögnin svo þau nýtist við stefnumótun.

Fyrri hluti rannsóknarinnar kom út í júní 2019. Menntamálastofnun hefur tekið saman skýrslu úr niðurstöðum síðari hluta rannsóknarinnar fyrir unglingastig grunnskóla þar sem fjallað er um helstu niðurstöður fyrir íslenskt skólakerfi og þær bornar saman við niðurstöður annarra þátttökuríkja, Norðurlandanna sérstaklega. Smelltu hér til að kynna þér skýrsluna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum