Hoppa yfir valmynd
30. júní 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Breyting á lögum um sjúkratryggingar samþykkt á Alþingi

Breytingar verða á stjórn og eftirlitsheimildum Sjúkratrygginga Íslands með breytingum á lögum um sjúkratryggingar en frumvarp heilbrigðisráðherra þess efnis var samþykkt á Alþingi í gær. Lögin öðlast þegar gildi. Heimildir stofnunarinnar til eftirlits verða efldar. Einnig er sú breyting gerð að stjórnin hefur ekki lengur það lögbundna hlutverk gera tillögu til ráðherra um skipun forstjóra.

Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er gert ráð fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands annist alla samningsgerð um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins, hvort sem um er að ræða þjónustu opinberra aðila eða einkaaðila. Stofnunin hefur til þessa haft skýrar heimildir til eftirlits með starfsemi samningsaðila en með lagabreytingunni er stofnuninni jafnframt tryggð heimild til eftirlits með veitendum þjónustu sem er með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga þótt ekki séu í gildi sérstakir samningar.

Með lagabreytingunni er kveðið á um ákveðnar breytingar á verklagi vegna eftirlits Sjúkratrygginga Íslands sem hafa að markmiði aukið öryggi og skilvirkni. Stofnuninni verður þannig heimilt að kalla eftir nauðsynlegum gögnum úr sjúkraskrá veitenda heilbrigðisþjónustu fremur en að skoðun gagnanna þurfi að eiga sér stað þar sem gögnin eru vistuð. Sjúkratryggingastofnunin hefur útbúið örugga leið fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að senda þau gögn sem eru nauðsynleg þegar eftirlit fer ekki fram á starfsstöð. Eftirlit og meðferð gagna skal uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og ákvæði laga um réttindi sjúklinga eftir því sem það á við.

Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi Sjúkratrygginga Íslands og á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Ábyrgð forstjóra gagnvart ráðherra og ábyrgð hans á rekstri stofnunarinnar er skýr. Með lagabreytingunni er því gert ráð fyrir beinu sambandi þeirra á milli, þannig að ráðherra skipi forstjóra án milligöngu stjórnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira