Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2020 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu staðfestar

Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um loftslagsmál sem ætlað er að styrkja umgjörð skuldbindinga Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu til 2030. Með breytingunni er lögfest samstarf Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um 40% heildarsamdrátt ríkjanna í losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2030, miðað við losun ársins 1990.

Ísland og Noregur náðu í lok árs 2018 samkomulagi við Evrópusambandið um þátttöku í sameiginlegu markmiði 30 ríkja innan Parísarsamningsins. Samkvæmt því eru teknar upp tvær lykilreglugerðir ESB á sviði loftslagsmála, auk reglna um bókhald og skýrslugjöf o.fl.
Með samþykktri breytingu á loftslagslögum er veitt heimild til að innleiða þessar reglugerðir, en þær fjalla annars vegar um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt og hins vegar um „sameiginlega ábyrgð“, sem nær til losunar utan viðskiptakerfis ESB, s.s. frá samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og meðferð úrgangs.

„Samþykkt frumvarpsins markar tímamót í loftslagsmálum á Íslandi því með þessu hefur Alþingi staðfest alþjóðlegar skuldbindingar okkar gagnvart Parísarsamkomulaginu í gegnum samstarf við Noreg og Evrópusambandið. Þessi niðurstaða Alþingis er því stórt skref í loftslagsmálum og henni fagna ég innilega,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Þá eru í lögunum ákvæði um breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) á fjórða tímabili viðskiptakerfisins sem varir frá 2021–2030 sem og ákvæði um auknar vöktunarskyldur flugrekenda vegna hnattræns kerfis Alþjóðaflugmálastofnunar sem ætlað er að taka á losun frá flugumferð frá 2021 (Carbon Offsetting and Reduction Scheme, CORSIA).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira