Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Stuðningur við einkarekna fjölmiðla vegna áhrifa COVID-19

Á nýliðnu þingi var mennta- og menningarmálaráðherra falið, að útfæra með reglugerð fyrirkomulag við úthlutun 400 milljóna. kr. sérstaks rekstrarstuðnings við einkarekna fjölmiðla til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Reglugerðin liggur nú fyrir, hún hefur verið kynnt ríkisstjórn og birt á vef Stjórnartíðinda.

Reglugerðin er sett með stoð í 9. gr. laga nr. 37/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónaveiru sem samþykkt voru á Alþingi þann 11. maí. Þar er tilgreint að við ákvörðun um fjárhæð stuðnings verði litið til launa, fjölda starfsmanna og verktakagreiðsla vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni á ritstjórnum árið 2019, ásamt útgáfutíðni miðilsins og fjölbreytileika. Stuðningurinn verður að hámarki 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjenda en stuðningur til hvers  umsækjenda getur ekki orðið hærri en sem nemur 25% af þeirri fjárveitingu sem Alþingi hefur úthlutað til sérstaks rekstrarstuðnings.

Undir stuðningshæfan rekstrarkostnað fellur beinn launakostnaður umsækjanda til blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna og ljósmyndara á árinu 2019 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni og beinar verktakagreiðslur til sambærilegra aðila. Fari svo að heildarfjárhæð samþykktra umsókna um stuðningshæfan rekstrarkostnað verði umfram fjárveitingar Alþingis skerðist stuðningurinn til allra umsækjenda í jöfnum hlutföllum.

Meðal skilyrða fyrir sérstökum rekstrarstuðningi eru:

  • Fjölmiðill skal vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar
  • Efni sem birtist í fjölmiðli skal vera fjölbreytt og ætlað fyrir almenning á Íslandi. Staðbundnir fjölmiðar eru undanþegnir þessu skilyrði.
  • Fjölmiðill skal hafa starfað með leyfi frá fjölmiðlanefnd, hafa staðið skil á árlegri skýrslugjöf til hennar og veitt  nefndinni fullnægjandi gögn og upplýsingar um eignarhald sitt, þar með talin gögn um raunverulega eigendur.
  • Fjölmiðill skal ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir.

Umsjón með umsóknarferli og mat á umsóknum verður á höndum fjölmiðlanefndar og mun hún skila tillögum um úthlutun stuðningsins til ráðherra. Nánari upplýsingar verður að finna á vef fjölmiðlanefndar á næstu dögum.

Umsóknir skulu afgreiddar fyrir 1. september 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira