Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2020 Félagsmálaráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Aðgerðateymi um ofbeldi skilar fyrstu áfangaskýrslunni

Félagsmálaráðuneytið auglýsir styrki til félagasamtaka  vegna verkefna á sviði félagsmála  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, skipuðu í byrjun maí aðgerðateymi í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Teyminu er stýrt af Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra, og Eygló Harðardóttur. Teymið hefur nú skilað fyrstu áfangaskýrslu sinni sem geymir sjö megintillögur sem eru ítarlega útfærðar og kostnaðarmetnar.

Tillögurnar eru eftirfarandi:

  • Að Barnahús verði eflt og styrkt þannig að mæta megi aukinni þörf fyrir þjónustu og uppræta biðlista sem hefur myndast.
  • Að neyðarnúmerið 112 verði eflt og þróað með þeim hætti að þangað verði hægt að leita vegna heimilisofbeldis og ofbeldis gegn börnum. Í þeim tilgangi verði m.a. þróað sérstakt vefsvæði sem geymi alhliða upplýsingar um ofbeldi, þ.m.t. upplýsingar um þjónustu og úrræðu á vegum opinberra aðila, félagasamtaka og einkaaðila.
  • Að aðgengi íbúa á landsbyggðinni að þjónustu vegna heimilisofbeldis verði styrkt og í því skyni verði stutt við að koma á fót kvennaathvarfi á Akureyri í tilraunaskyni og þörfin metin á slíku úrræði í beinu framhaldi.
  • Að stuðningur við börn sem eru í viðkvæmri stöðu verði aukinn og áhersla á vernd þeirra efld. Liður í því verði að fjölga úrræðum fyrir gerendur ofbeldisbrota sem eru börn að aldri.
  • Að komið verði á tilraunaverkefni sem felur í sér að efla og þróa samvinnusýslumanna, lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar í málum er lúta að velferð og högum barna, með sérstakri áherslu á vernd barna sem búa við eða hafa búið við ofbeldi á heimili.
  • Að ríkislögreglustjóra verði falið gera úttekt og greiningu á ofbeldi gegn öldruðum og fötluðum í þeim tilgangi að auka enn frekar vernd þessa hóps. Í því skyni verði m.a. lögð áhersla á að efla vitund innan lögreglunnar og meðal almennings um ofbeldi gegn þessum hópum.
  • Að sérstakir styrkir verði veittir til verkefna sem fela í sér aðgerðir gegn ofbeldi með áherslu á samstarf frjálsra félagasamtaka og opinberra aðila.

Gert er ráð fyrir að aðgerðateymið starfi til loka september 2020 og skili þá samantekt á aðgerðum og árangri af vinnu sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira