Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2020 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Endurskoðun á lögum um villt dýr í samráðsgátt

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Um er að ræða heildarendurskoðun laga þessa efnis.

Lögin voru endurskoðuð í samræmi við ákvæði í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Við vinnslu frumvarpsdraganna var m.a. horft til tillagna í skýrslu nefndar um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra, auk þess sem haft var samráð við ýmsar stofnanir og áhuga- og hagsmunasamtök.

Í frumvarpsdrögunum eru lagðar til fjölmargar breytingar á gildandi löggjöf. Þar eru ákvæði m.a. um eftirfarandi:

 • Sérstakar stjórnunar og verndaráætlanir verði gerðar fyrir alla helstu stofna og tegundir villtra dýra og þær liggi til grundvallar ákvarðanatöku í málaflokknum.
 • Gerð stjórnunar- og verndaráætlana verði samvinnuverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar.
 • Válistar verði lögfestir.
 • Allar veiðar á villtum dýrum, þ.m.t. hlunnindaveiðar, skuli vera sjálfbærar.
 • Lagðar eru til breytingar á heimilum veiðiaðferðum.
 • Settar verði inn undanþágur varðandi skotveiðar úr farartækjum fyrir veiðimenn sem bundnir eru í hjólastól.
 • Tekið verði með markvissum hætti á tjóni sem villt dýr og fuglar valdi.
 • Veiðikortakerfið verði einfaldað og nái einnig yfir minkaveiðar, eggjatöku og hlunnindaveiðar.
 • Mælt fyrir um virka veiðistjórnun og veiðieftirlit á landinu öllu.
 • Fleiri möguleikar verði fyrir hendi til að veita villtum dýrum og búsvæðum þeirra alhliða og sértæka vernd.
 • Aukin áhersla er lögð á dýravernd og dýravelferð.

Fyllri lýsing á fyrirhuguðum breytingum frá núgildandi lögum er að finna á samráðsgátt stjórnvalda og í frumvarpsdrögunum sem þar eru að finna.

Umsögnum um frumvarpið skal skilað í samráðsgátt og er frestur til þess til 10. ágúst næstkomandi.

Drög að frumvarpi til laga um til laga um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og villtra spendýra á samráðsgátt stjórnvalda.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira