Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2020 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Töluverð ánægja með þjónustu ríkisstofnana

Nýlegar kannanir á þjónustu ríkisstofnana gefa til kynna að á heildina litið sé mikil ánægja með þjónustu þeirra stofnana sem spurt var um og mældist hún yfir meðaltali úr þjónustugrunni Gallups. Á sama tíma eru umbótatækifæri til staðar, t.d. við að auka hraða þjónustunnar. Þá er mikil ánægja með stafræna þjónustu hins opinbera en framboð á slíkri þjónustu er sífellt að aukast í gegnum vefinn island.is.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að mæla eigi gæði þjónustu ríkisins með það að markmiði að bæta markvisst almannaþjónustu. Ríkisstjórnin ákvað í samræmi við framangreint að láta framkvæma samræmda könnun um opinbera þjónustu. Verkefninu var skipt upp í þrjá áfanga og voru niðurstöður úr fyrsta áfanga verkefnisins kynntar í apríl sl. Nú liggja fyrir niðurstöður úr öðrum áfanga verkefnisins þar sem spurt var um sjúkrahúsþjónustu, löggæslu, menningarstofnanir, framhalds- og menntaskóla, háskóla og dómstóla ásamt Embætti landlæknis, Hagstofu Íslands og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Spurt var út í ánægju fólks með þá þjónustu sem snertir það með beinum hætti og líklegt er að það hafi nýtt sér yfir 12 mánaða tímabil. Samanlagt hafa yfir 3.500 einstaklingar, 18 ára og eldri, verið spurðir um reynslu sína af opinberri þjónustu í báðum áföngum verkefnisins. Niðurstöðurnar gefa vísbendingu um gæði opinberrar þjónustu, hraða, áreiðanleika og viðmót ásamt ánægju með stafræna þjónustu stofnana.

 

Framkvæmd könnunar

Á vef Gallup má finna ítarlegri niðurstöður úr könnuninni. Fjöldi svarenda samanlagt fyrir áfanga eitt og tvö er 3.531 en á milli 100-341 svarendur eru á bak við hvern þjónustuveitanda (ríkisstofnun). Niðurstöðurnar veita upplýsingar um heildaránægju með opinbera þjónustu ríkisstofnana en gefa jafnframt til kynna hver ánægjan eða óánægjan er í tilteknum málaflokkum. Þjónustukönnunin var framkvæmd með þeim hætti að unnt er að endurtaka hana síðar svo að mögulegt sé að fylgjast með þróun á þjónustustigi hins opinbera. Slíkar mælingar gera forgangsröðun á umbótum á þjónustu ríkisins markvissari og verður með þessu móti t.d. hægt að meta árangur af stafvæðingu opinberrar þjónustu.

COVID-19 ýtir undir framfarir

Víða um heim hefur ástandið vegna COVID-19 heimsfaraldurs orðið til þess að aukin áhersla hefur verið sett á nýsköpunarverkefni hins opinbera og hefur stafræn þjónusta sérstaklega tekið stórt stökk fram á við. Þetta á líka við hérlendis og er mjög jákvætt að sjá hversu vel stofnanir hins opinbera hafa náð að aðlaga sig að breyttu þjónustumynstri í takti við þarfir notenda. Í haust verður haldinn Nýsköpunardagur hins opinbera þar sem verkefnum á tímum heimsfaraldurs verður gerð skil með áherslu á að halda í góðar breytingar og hvetja til endurnýtingar á snjöllum lausnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira