Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkraflug tryggt fyrir ósjúkratryggða sjúklinga

Horft að Keili frá Sjálandi í Garðabæ - myndHugi Ólafsson

Heilbrigðisráðherra hefur gert breytingu á reglugerð um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustuna, með þeim hætti að nú er kveðið á um sjúkraflug fyrir ósjúkratryggða sjúklinga. 

Með breytingunum er brugðist við þeirri óvissu sem ríkt hefur um hver skuli greiða fyrir sjúkraflug ósjúkratryggðs sjúklings geti hann ekki sjálfur tryggt greiðslu og hver beri skaðann ef ekki næst að innheimta gjald fyrir þjónustuna. Breytingarnar tryggja aðgengi ósjúkratryggðra að sjúkraflugi án tillits til greiðslugetu eða stöðu í íslensku sjúkratryggingakerfi og draga þannig úr áhættu á að tafir verði á nauðsynlegum flutningi ósjúkratryggðra með sjúkraflugi.

Sjúkraflug telst til heilbrigðisþjónustu og skal veita öllum sem þess þurfa án tillits til sjúkratryggingalegrar stöðu. Heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands hafa því í samvinnu unnið að breyttu verklagi vegna sjúkraflugs ósjúkratryggðra sem felur m.a. í sér breytingu á reglugerð nr. 1249/2019, breyttu verklagi hjá heilbrigðisstofnunum og breytingu á samningi um sjúkraflug við Mýflug. 

Hér á landi er fyrirkomulag sjúkraflugs með þeim hætti að í gildi er samningur við Mýflug um flutning sjúklinga og þjónustu fylgdarmanns (bráðaliða). Í núgildandi reglugerð um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi og greiðslur fyrir þjónustuna, nr. 1249/2019,  er ekki fjallað um sjúkraflug ósjúkratryggðra sjúklinga. Þá var í samningi Sjúkratrygginga Íslands og Mýflugs einungis samið um greiðslur fyrir þjónustu sem fólst í sjúkraflugi sjúkratryggðra sjúklinga og þeirra sem framvísa evrópska sjúkratryggingakortinu.

Reglugerð um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustuna

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira