Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Höfðaborgarsamningur um alþjóðleg tryggingarréttindi loftfara fullgiltur

Höfðaborgarsamningurinn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara hafa verið fullgilt af Íslands hálfu. Mun samningurinn og bókunin um búnað loftfara taka formlega gildi hvað Ísland varðar þann 1. október nk. Meginmarkmið Höfðaborgarsamningsins er að styðja við og auðvelda fjármögnun viðskipta milli landa með hreyfanlegan búnað. 

Samningurinn hefur talsverða þýðingu fyrir Ísland, einkum hvað varðar viðskipti með flugvélaskrokka (án hreyfla) og þyrlur yfir tilgreindum flutningsgetu- og þyngdarmörkum, og hreyfla af tiltekinni gerð og afli. Fullgilding Íslands nær til bókunar Höfðaborgarsamningsins um búnað loftfara, en aðrar bókanir (ófullgiltar) við samninginn fjalla um búnað járnbrauta, geimbúnað og búnað til námuvinnslu, landbúnað og mannvirkjagerð.

Í júní 2019 samþykkti Alþingi lög sem lögfestu Höfðaborgarsamninginn og bókun um búnað loftfara og gerðu stjórnvöldum kleift að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd (lög nr. 74/2019). Að loknu undirbúningi og fullgildingarferli var gildistaka laganna og fullgilding samningsins auglýst 1. júlí sl. í Stjórnartíðindum. Lögin voru samin í dómsmálaráðuneytinu í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Eitt þýðingarmesta atriði Höfðaborgarsamningsins er stofnun alþjóðlegra tryggingarréttinda (e. international interest) í þeim hreyfanlega búnaði sem samningur aðila tekur til. Alþjóðleg tryggingarréttindi er nýtt hugtak sem á sér ekki hliðstæðu. Til þess að hvetja fjármögnunarfyrirtæki til að leggja fé til þessara viðskipta er nauðsynlegt að draga úr þeirri áhættu sem fylgir ólíkum og stundum ófullnægjandi reglum landa um úrræði kröfuhafa vegna vanefnda skuldara. Í samningnum eru úrræði kröfuhafa aukin og reglur aðildarríkja samræmdar. Jafnframt er í samningnum sett á fót alþjóðleg skráningarmiðstöð þar sem kröfuhafar geta skráð tryggingarréttindi sín í samgöngutækjum og þannig tryggt forgang kröfu sinnar. Á þennan hátt eru auknar líkur á því að fjármögnunaraðilar nái fram efndum og þeir telja sig þar með geta veitt viðskiptavinum sínum betri kjör.

Íslensku lögin um fullgildingu Höfðaborgarsamningsins hafa verið þýdd á ensku í því skyni að hægt verði að nýta hratt og vel ávinning af fullgildingu samningsins og bókunarinnar. Vonir standa til þess að ávinningur geti m.a. falist í að bæta kjör við kaup flugvéla, þyrlna og hreyfla, draga úr óvissu við fjármögnun og styrkja samkeppnislega stöðu íslenskra flugrekenda.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira