Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2020 Forsætisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Allir komufarþegar fari í tvöfalda skimun og 5-6 daga sóttkví

Ríkisstjórnin ákvað á fundi í dag að eigi síðar en frá og með miðvikudeginum 19. ágúst næstkomandi verði allir komufarþegar skimaðir tvisvar við komuna til Íslands. Fyrri sýnataka verður á landamærum, að því búnu ber komufarþegum að fara í sóttkví í 5-6 daga þangað til niðurstaða er fengin úr seinni sýnatöku.

Þessi ákvörðun er tekin í ljósi þess hvernig veiran hefur þróast á heimsvísu og hér innan lands. Tíðni smita vegna Covid-19 fer vaxandi í nágrannalöndum og um allan heim. Þá er enn verið að kljást við hópsýkingu sem upp hefur komið hér á landi án þess að vitað sé hvernig það afbrigði veirunnar barst inn í landið. Loks liggur fyrir að sóttvarnalæknir telur þessa leið áhrifaríkasta frá sóttvarnasjónarmiði.

Helsta breytingin sem leiðir af þessari ákvörðun er sú að allir farþegar, fyrir utan börn fædd 2005 og síðar, verða skimaðir við komu til landsins. Undanfarið hafa farþegar frá tilteknum ríkjum verið undanskildir. Í þeim ríkjum er faraldurinn að taka sig upp að nýju og erfitt hefur reynst að hafa eftirlit með því að farþegar hafi í raun dvalið 14 daga í viðkomandi landi. Þá ber öllum að fara í sýnatöku 2 til þess að tryggja betur að smit greinist hjá þeim sem eru nýlega smitaðir. Hingað til hefur sú krafa einungis átt við Íslendinga og þá sem hér eru búsettir eða koma til lengri tíma dvalar. Fyrstu 5-6 dagana þurfa viðkomandi að vera í sóttkví sem er öruggara og skýrara fyrirkomulag en svokölluð heimkomusmitgát sem mun þá heyra sögunni til. 

Loks verða reglur um forskráningu farþega hertar til þess að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir áður en komið er til landsins.

Þessi ákvörðun er byggð á þeirri verðmætu reynslu sem fengist hefur við skimun á landamærum frá 15. júní sl. þar sem samstarf heilsugæslunnar, Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið lykilatriði undir yfirstjórn sóttvarnalæknis og með fulltingi landamæraeftirlits og almannavarnadeildar lögreglu. Nú eru reglur hertar til að lágmarka enn frekar hættuna á nýjum smitum með öryggi landsmanna og lýðheilsu að leiðarljósi. Með þessu er talið að dregið verði úr líkum á því að frekari raskanir verði á daglegu lífi landsmanna vegna sóttvarnaraðgerða innanlands. Áfram verður fylgst grannt með þróun mála í öðrum ríkjum og reglur endurmetnar með hliðsjón af henni. Hér eftir sem hingað til metur sóttvarnalæknir með reglubundnum hætti hvort lönd séu lágáhættusvæði og fari þá yfir í fyrirkomulag einfaldrar skimunar á landamærum.

Full ástæða er enn til að leggja áherslu á einstaklingsbundnar smitvarnir; handþvott, sprittun og tveggja – metra regluna hér innanlands.

Tilkynningin var uppfærð 16. ágúst 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum