Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Gagnaþon fyrir umhverfið: Fjöldi spennandi verkefna í úrslitum sem kynnt verða í dag

Nýsköpunarkeppnin Gagnaþon fyrir umhverfið stóð yfir dagana 12. - 19. ágúst en í dag verða veitt verðlaun fyrir bestu verkefnin í þremur flokkum keppninnar. Úrslit verða tilkynnt kl. 13:00 í beinni útsendingu á Facebook-síðu gagnaþonsins og á Vísi.is. Úrslit tilkynna Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands & Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík.

Veitt verða verðlaun í þremur flokkum - besta gagnaverkefnið, besta endurbætta lausnin og besta hugmyndin. Vinningsteymi besta gagnaverkefnisins hlýtur 750.000 kr. Í sigurlaun, besta endurbætta lausnin 450.000 kr. og vinningsteymi bestu hugmyndinnar hlýtur 200.000 kr. Keppnin gekk út á nýskapandi hugmyndir sem nýst gætu umhverfinu. Dæmi um lausnir sem urðu til eða voru bættar í keppninni eru kolefnisreiknir sem tengdur er heimabanka, bót á matvælasóun, svifryksspá og plastumbúðir úr iðnaðarhampi annars vegar og þörungum hins vegar.

Samtals skráðu hátt í 200 keppendur sig til leiks, en 17 teymi skiluðu inn gildum lausnum 19. ágúst síðastliðinn. Vegna samfélagsaðstæðna fór gagnaþonið fram stafrænt og fengu þátttakendur leiðsögn frá leiðbeinendum á þann máta.

 „Það er ánægjulegt að sjá hversu margar nýjar og fjölbreyttar lausnir komu fram, en það er hluti af aðgerðaráætlun um nýsköpun hjá hinu opinbera að gera opinber gögn sýnilegri og jákvætt að sjá fólk spreyta sig á að nýta gögnin umhverfinu til hagsbóta. Með þessu verða til verðmæti fyrir samfélagið til frambúðar með nýjum tækifærum, nýjum störfum og nýrri þekkingu,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

,,Gagnaþon fyrir umhverfið er nýsköpunarkeppni sem nú er haldin í fyrsta skipti. Ég er afar hrifinn af þessu framtaki sem reynir á nýsköpun, þverfræðilega samvinnu í teymum og hagnýtingu gagna með gríðarlegum upplýsingum sem margir aðilar hafa látið í té. Nýskapandi teymisvinna með stór gagnasöfn, þvert á fræðigreinar er ótvírætt lykill að framtíðinni.“ segir Jón Atli Benediktsson,“ rektor HÍ um keppnina.

Þær lausnir sem keppa um fyrstu verðlaun í hverjum flokki eru eftirfarandi:

Besta hugmyndin

 • Hemp Pack - Lífplast (e. bioplastics) úr iðnaðarhampi
 • Hjólað fyrir umhverfið - Farsímaapp sem heldur utan um sparað kolefnisspor og hvetur til hjólreiða.
 • MAREA  -Lífplast í stað einnota plasts með það að markmiði að ráða bót á þeirri mengun sem stafar af notkun einnota plasts á Íslandi.
 • Towards A Better Future - Miðar að því að draga úr losun mengandi efna með mismunandi hætti.

Endurbætt lausn

 • &L  Hagnýtari kolefnisreiknivél
 • Eno - Hagnýtari lausn til að lesa opinber gögn í Excel
 • GreenBytes - Dregur úr matasóun veitingastaða með því að nota gervigreind og veðurstofugögn
 • Meniga Carbon Index - Kolefnisstuðull sem gerir fólki kleift að fá upplýsingar um kolefnisspor sitt, tengt sinni neyslu.
 • Svifryksspá - Tvinnar saman veðurathugunargögn og svifryksgögn til að að spá fyrir um svifryk í lofti fyrir komandi daga.

Besta gagnaverkefnið

 • Flikk Flokk - Snjallsímaforrit sem auðveldar endurvinnslu með því að veita upplýsingar um hvernig má endurvinna vöruna, þegar strikamerki vöru er skannað.
 • Hark - Myndræn framsetning á opinberum kortagögnum
 • NetZero - Auðveldar einstaklingum að meta kolefnisspor sitt, ásamt því að veita tækifæri kolefnisjöfnunar í takt við neyslu.
 • Núloft - Miðlar upplýsingum og spáir fyrir um loftgæði í Reykjavík
 • Skrefinu framar  -App, sem skorar á fólk og ýtir undir meðvitund um að minnka kolefnisfótspor. 

Verðlaunaafhendingin fer fram kl. 13:00, streymt verður beint frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á facebook-síðu gagnaþonsins og á Visi.is. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands og fleiri aðilar standa að keppninni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira