Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Nýtt neyðarathvarf fyrir konur opnað á Akureyri

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra við opnun athvarfsins.  - mynd

Nýtt neyðarathvarf fyrir konur var opnað í dag á Akureyri en það verður starfrækt í tilraunaskyni til 30. apríl 2021. Samtök um kvennaathvarf og Bjarmahlíð - þjónustumiðstöð við þolendur ofbeldis standa að opnun neyðarathvarfsins í samvinnu við sveitarfélög á Norðurlandi eystra, félagsmálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti. Opnun athvarfsins er hluti af vinnu aðgerðateymis skipuðu af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla.

Athvarfið er starfrækt í fjögurra herbergja íbúð í nágrenni Bjarmahlíðar á Akureyri. Þar er sólahringsþjónusta, líkt og í Kvennaathvarfinu í Reykjavík, þegar þolandi nýtir sér þjónustu athvarfsins. Náin samvinna verður um daglegan rekstur athvarfsins á milli Aflsins – samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Bjarmahlíðar, Samtaka um Kvennaathvarf og sjálfboðaliða.

Bjarmahlíð hóf starfsemi á Akureyri árið 2019 og hefur frá opnun veitt þjónustu, ráðgjöf og stuðning til fjölda einstaklinga vegna kynferðisofbeldis, ofbeldis í nánum samböndum, heimilisofbeldis og fjárhagslegs ofbeldis. Neyðarathvarfið mun styðja við starfsemi Bjarmahlíðar, en hingað til hefur eina kvennaathvarfið þar sem konur og börn geta dvalist þegar dvöl í heimahúsum er óbærileg vegna ofbeldis verið í Reykjavík.

Samhliða starfsemi athvarfsins verður unnin rannsókn á húsnæðisaðstæðum þeirra sem leita til Bjarmahlíðar vegna ofbeldis, bæði meðal þeirra sem þiggja ráðgjöf og þjónustu og þeirra sem dvelja í neyðarathvarfinu.  Framkvæmd rannsóknarinnar verður í höndum starfsmanna Bjarmahlíðar, í samstarfi við Háskólann á Akureyri og sveitarfélögin á Norðurlandi. Að loknu tilraunatímabilinu verður lagt mat á áframhaldandi þörf fyrir neyðarathvarfið.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er afar ánægjulegt að opnun neyðarathvarfs fyrir konur á Akureyri sé orðin að veruleika. Það er gríðarlega mikilvægt að við greiðum aðgengi þeirra kvenna sem þurfa á stuðningi og ráðgjöf að halda vegna ofbeldis og með opnun athvarfsins á Akureyri verður þjónusta og fagleg aðstoð aðgengilegri fyrir konur á Norðurlandi, sem þurfa ekki að ferðast til Reykjavíkur til að komast í athvarf.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Heimilið á að vera friðar- og griðastaður en ekki vettvangur ofbeldis og annarra óhæfuverka. Kvennaathvarfið hefur reynst þessi staður fyrir fjölmargar konur og börn þar sem öryggi og hlýja mæta þeim sem þangað leita. Opnun athvarfsins á Akureyri er mikilvægt skref í vinnu stjórnvalda til að tryggja konum öryggi og frelsi.“

  • Frá opnun neyðarathvarfs fyrir konur á Akureyri.  - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum