Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Njálurefillinn fær varanlegt sýningarrými

Njálurefillinn fær varanlegt sýningarrými. - mynd

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að veita 25 milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til þess að koma hinum svokallaða Njálurefli fyrir í varanlegu sýningarhúsnæði í Rangárþingi Eystra. Refillinn er 90 metra langur hördúkur þar sem Njálssaga er saumuð með refilsaumi.

Verkið hefur verið unnið í sjálfboðavinnu síðastliðin ár, einkum af konum í Rangárþingi, en hönnuður þess er Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari og listamaður. Verkefninu, sem lýkur í ár, er ætlað að varðveita á sérstæðan hátt menningararfleið héraðsins og skapa verk sem hefur aðdráttarafl fyrir þá ferðamenn sem hafa áhuga á Íslendingasögunum, listum og handavinnu.

Njála er ein þekktasta fornsaga Íslendinga og margir erlendir ferðamenn og fræðimenn gera sér ferð til landsins til að skoða sögusvið sögunnar á Suðurlandi. Gert er ráð fyrir að kostnaður við að hanna sýninguna og koma henni upp sé um 50 m.kr. og var óskað eftir þátttöku ríkisins í verkefninu. Það er sveitarfélagið Rangárþing eystra sem er eigandi og hefur umsjón með Njálureflinum.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum