Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2020 Félagsmálaráðuneytið

Skipunarbréf Velferðarvaktar uppfært ​

Nýlega uppfærði félags- og barnamálaráðherra skipunarbréf Velferðarvaktarinnar, en hún var fyrst skipuð 17. febrúar 2009. Gefið var út nýtt skipunarbréf fyrir Velferðarvaktina 8. október 2010 og 18. júní 2014. Breytingar á skipunarbréfinu nú felast einkum í því að ekki er lengur vísað til efnahagshrunsins, sem átti sér stað fyrir meira en áratug. Þá felur nýtt skipunarbréf í sér aukinn sveigjanleika varðandi viðfangsefni vaktarinnar. Að öðru leyti verða meginhlutverk og störf vaktarinnar með sama hætti og áður. Eldri texti skipunarbréfs var eftirfarandi

Félags- og barnamálaráðherra skipar þig hér með í velferðarvakt sem ætlað er að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum efnahagshrunsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu og gera tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna. Velferðarvaktin skal  huga að velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra og afla upplýsinga um aðstæður þeirra sem búa við sára fátækt svo draga megi úr henni. Velferðarvaktin er ráðgefandi fyrir félags- og barnamálaráðherra sem og stjórnvöld. Gert er ráð fyrir að vaktin afhendi ráðherra stöðuskýrslur með reglubundnum hætti sem fjalli eftir atvikum um afmörkuð viðfangsefni og leggi fram tillögur til úrbóta sem stjórnvöld taki afstöðu til hverju sinni. Velferðarvaktin skal fylgjast með framvindu tillagnanna. Velferðarvaktin hefur upplýsingarskyldu gagnvart stjórnvöldum jafnt sem almenningi og skal miðla upplýsingum til þeirra með markvissum hætti.“

Fulltrúar skipaðir 1. september

Nýrri texti skipunarbréfs eftir uppfærslu er eftirfarandi

Félags- og barnamálaráðherra skipar þig hér með í velferðarvakt sem ætlað er að fylgjast með félagslegri- og fjárhagslegri stöðu einstaklinga og fjölskyldna í landinu með áherslu á velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, einkum einstæðra foreldra og barna þeirra. Velferðarvaktin afli upplýsinga um aðstæður þeirra sem búa við sárafátækt og skoði með hvaða hætti draga megi úr henni. Velferðarvaktin taki auk þess til skoðunar önnur mál eftir atvikum sem talið er að þarfnist frekari umfjöllunar og mögulega tillögur þar um. Velferðarvaktin er óháður ráðgefandi fyrir félags- og barnamálaráðherra, sem og stjórnvöld og skal leggja eftir atvikum fram tillögur til úrbóta sem stjórnvöld taki afstöðu til hverju sinni. Velferðarvaktin skal fylgjast með framvindu tillagnanna. Velferðarvaktin hefur upplýsingarskyldu gagnvart stjórnvöldum jafnt sem almenningi og skal miðla upplýsingum til þeirra með markvissum hætti. Gert er ráð fyrir að vaktin afhendi ráðherra reglulegar stöðuskýrslur sem fjalli um helstu störf og viðfangsefni hennar á því tímabili sem hún nær til.“

Listi yfir fulltrúa Velferðarvaktar sem eru skipaðir frá og með 1. september 2020.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira