Hoppa yfir valmynd
2. september 2020 Forsætisráðuneytið

Þjóðhagsráð fór yfir áskoranirnar framundan

Áherslur við endurskoðun fjármálastefnu, staða efnahagsmála, félagslegur stöðugleiki og endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði voru meðal efnis á fundi þjóðhagsráðs í dag en þar sitja formenn ríkisstjórnarflokkanna, seðlabankastjóri, forsvarsmenn sveitarfélaga og forsvarsmenn heildarsamtaka á vinnumarkaði. Ráðið hefur hist fimm sinnum síðan heimsfaraldurinn hófst fyrr á þessu ári. Á þessum fundum hefur ráðið fjallað um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans og gestafyrirlesarar hafa rætt um þær stóru áskoranir sem samfélag okkar og heimurinn allur stendur frammi fyrir um þessar mundir. Þá hefur Þjóðhagsráðið haldið aukafund með leiðtogum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi um það hvernig Ísland geti skapað sér efnahagslegt forskot og félagslega og umhverfislega sérstöðu í alþjóðlegu samhengi í kjölfar COVID-19. 

Markmið Þjóðhagsráðs er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra: „Þetta samtal á milli þeirra sem stýra för í ríkisfjármálastefnu, peningamálastefnu og kjarasamningum er mjög mikilvægt, ekki síst við þær aðstæður sem við búum við núna. Það þarf að hafa í huga bæði aðgerðir til skemmri tíma og langtímasýn sem verður að byggjast á verðmætasköpun, fjölbreytni og velsæld. Við verðum líka að hafa í huga að kórónaveiran fer ekki eins með alla sem henni mæta. Í kjölfar fimm meiriháttar veirufaraldra á síðustu áratugum hefur tekjuójöfnuður vaxið markvert samkvæmt rannsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Heimsmarkmiðin

10. Aukinn jöfnuður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum