Hoppa yfir valmynd
4. september 2020 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór ræddi ástandið í Hvíta-Rússlandi á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna

Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Íslands, kynnir Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, á fjarfundi öryggisráðsins í dag.  - myndUtanríkisráðuneytið


Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, flutti sameiginlegt ávarp Norðurlandanna á sérstökum fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um málefni Hvíta-Rússlands sem fram fór í dag. Lýsti Guðlaugur fyrir hönd norrænu utanríkisráðherranna miklum áhyggjum af stöðu mannréttinda í Hvíta-Rússlandi í kjölfar nýlegra forsetakosninga sem engan veginn gætu talist hafa verið frjálsar eða óháðar.

Guðlaugur sagði það vekja sérstakan óhug hversu miklu ofbeldi hefði verið beitt gegn friðsömum mótmælendum og fjölmiðlafólki. Krefjast bæri þess að vilji almennings í Hvíta-Rússlandi væri virtur og öllum gert kleift að lýsa sjónarmiðum sínum. „Við getum ekki staðið aðgerðalaus hjá og verið hikandi í gagnrýni okkar, þegar við horfum upp á jafn alvarleg mannréttindabrot og hömlur á sjálfsögðu réttindum fólks og raun ber vitni,“ sagði ráðherrann. 

Fundurinn í dag var haldinn að frumkvæði Eista, sem sæti eiga í öryggisráðinu um þessar mundir, og með stuðningi Bretlands, Bandaríkjanna, Kanada, Danmerkur, Íslands, Lettlands, Litháen, Póllands, Rúmeníu og Úkraínu. Frummælendur voru Anaïs Marin, sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um ástand mannréttinda í Hvíta-Rússlandi, Sviatlana Tsikhanouskaya, sem var frambjóðandi stjórnarandstöðunnar í nýafstöðnum forsetakosningum í Hvíta-Rússlandi, Valiantsin Stefanovic, varaforseti mannréttindasamtakanna Viasna og Volha Siakhovich á vegum blaðamannasambands Hvíta-Rússlands.

Fundur öryggisráðsins í dag var skipulagður sem svokallaður Arria fundur, en það eru óformlegir fundir um málefni sem tengjast öryggisráðinu sem aðildarríki og ríki öryggisráðsins geta staðið fyrir en teljast ekki hluti af formlegri dagskrá ráðsins. Ríkjum gefst þannig meira svigrúm með efnisval og þátttakendur á fundunum. Fundirnir draga nafn sitt af Diego Arria, fyrrverandi fastafulltrúa Venesúela, sem fyrstur tók upp á því að skipuleggja slíka fundi í mars 1992 þegar Venesúela var með formennsku í ráðinu.
 
  • Guðlaugur Þór Þórðarson fylgist með ávarpi Sviatlönu Tsikhanouskayu á fundinum í dag

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira