Hoppa yfir valmynd
10. september 2020 Félagsmálaráðuneytið

Mennt er máttur - Fjölbreytt þjónusta fyrir nemendur með sérþarfir á öllum skólastigum.

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, á Vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins:

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að taka þátt í deginum í dag sem fjallar um það mikilvæga málefni menntun. Menntun á að vera fyrir alla og okkur, kerfinu, ber að sjá til þess að til staðar sé fjölbreytt þjónusta fyrir nemendur með sérþarfir á öllum skólastigum. Dagskrá þessarar ráðstefnu er heldur betur glæsileg og það er augljóst að hér höfum við samansafn sérfræðinga sem brenna fyrir þessu málefni. Fyrir hönd samfélagsins alls vil ég þakka kærlega fyrir það.

Málefni barna hafa til langs tíma verið mér hugleikin og hafa börn verið aðaláhersluatriði mitt í embætti. Eins og þegar er stundað innan Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins er þverfaglegt samstarf afar mikilvægt börnum og fjölskyldum þeirra. Að sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum geti aðstoðað barn og fjölskyldu þess á einum stað, sem teymi, en að ekki þurfi að leita með barnið á marga staði, endurtaka sögu þess og byrja að einhverju leyti frá grunni í hvert sinn. Fyrir tveimur árum síðan undirrituðum við fimm ráðherrar, auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, viljayfirlýsingu við hátíðlegt tækifæri, um aukið samstarf í málefnum barna. Hagsmunir barna ættu að vera í fyrirrúmi og brjóta þyrfti múra milli ráðuneyta og fagstétta til þess að geta sinnt börnunum betur.

Til þess að þessi viljayfirlýsing yrði örugglega meira en falleg orð á blaði var settur af stað stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna til að fylgja málunum eftir og til þess að sýna samstarfið í verki sendi ég, í upphafi árs 2019, bréf til ríflega 600 einstaklinga, félagasamtaka og stofnana um land allt og óskaði eftir ábendingum þeirra í tengslum við vinnuna sem hafin var í málefnum barna og var öllum viðtakendum boðið að bjóða fram þekkingu sína með þátttöku í hliðarhópum á opnum fundum. Um 700 ábendingar og óskir um þátttöku bárust sem að mínu mati sýnir að við erum rík af fólki sem vill leggja sitt af mörkum til að gera vel í þessum málaflokki. Að mínu mati sýnir þetta einnig vilja alls þessa hóps til þess að vinna saman að sameiginlegu markmiði, þvert á fagstéttir og starfsstöðvar.

Átta hópar, skiptir eftir málefnum, urðu fullskipaðir – margir af öflugustu þátttakendunum í þessari vinnu eru einmitt staddir hér í dag - og frá þeim komu tillögur og sjónarmið sem nýtt hafa verið í vinnunni síðustu misseri innan ráðuneytisins, stýrihópsins og þingmannanefndar sem starfað hefur undanfarið og er skipuð fulltrúum allra þingflokka. Það er nefnilega ekki nóg að krefjast þess af þeim sem sinna nærþjónustu við börn að starfa saman þvert á fagstéttir heldur er nauðsynlegt að við í stjórnmálunum lítum fram hjá flokkslínum þegar að þessu málefni kemur. 

Í framhaldi af þessu hefur verið markvisst unnið að frumvarpagerð í átt að breytingum í þágu barna. Í þeirri vinnu hefur verið lögð áhersla á að horfa heildstætt á þjónustu við barn, allt frá meðgöngu til fullorðinsára. Ábyrgð og frumkvæðisskylda stjórnvalda mun verða styrkt til þess að styðja betur við börnin og fjölskyldur þeirra. Snemmtækur stuðningur er eitt, ef ekki það allra mikilvægasta sem við sem samfélag getum boðið börnum sem þurfa þjónustu af hverju tagi sem er. Það er margsannað lögmál að því fyrr sem við getum gripið inn í til góðs, því betur tekst okkur til.

Vinnan sem mun skila af sér nokkrum fjölda frumvarpa á komandi þingvetri lýtur að þjónustu við börn í víðum skilningi. Innan skólakerfisins á öllu stigum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Innan heilbrigðiskerfisins, félagslega kerfisins og annars staðar sem þjónusta við börn fer fram. Samþætting þjónustu í öllum þessum kerfum og á öllum stigum þeirra er rauði þráðurinn í öllu þessu. Skólar og aðrar fræðslustofnanir eru með mikilvægustu stofnunum samfélagsins til þess að tryggja fullnægjandi þjónustu og umhverfi barna, mæta ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum og búa til eitt samfélag fyrir alla. Þetta – algjörlega í takt við vinnu um samþættingu þjónustu við börn - er einmitt meðal áherslna í nýrri menntastefnu menntamálaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, til ársins 2030 sem kynnt var í samráðsgátt í vor og til stendur að leggja fram á Alþingi nú í haust.

Meðfram þessari vinnu hefur verið farið fram stefnumótun um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem fyrir skömmu átti 30 ára afmæli, undir yfirskriftinni Barnvænt Ísland. Sú stefna er unnin þvert á ráðuneyti og byggir á þeim ríka vilja að tryggja börnum á Íslandi bestu lífsgæði sem kostur er á. Stefnan fylgir ítrustu kröfum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna en meðal þeirra atriða sem þar má finna eru gagnvirkt samtal stjórnvalda við börn og aukin þátttaka barna í stefnumótun. Sveitarfélög víðs vegar um landið hafa sýnt því mikinn áhuga að hefja þá vegferð að verða barnvæn sveitarfélög og hafa þau mörg hver þegar hafið þá vegferð, sum eru komin langt í sinni vinnu og nú þegar höfum við eitt sveitarfélag sem hefur lokið vinnu sinni og fær að kalla sig barnvænt sveitarfélag, þó þeirri vinnu ljúki líklega aldrei að fullu. Hjördís Eva Þórðardóttir, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, mun kynna Barnvænt Ísland betur hér innan skamms.

Hvað Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins varðar er áhersla lögð á að styrkja enn frekar það hlutverk hennar að hún verði miðstöð þekkingar á þroskaröskunum og fötlunum meðal barna þannig að þau fái stuðning til að taka virkan þátt í lífi og starfi samfélagsins. Þá vil ég einnig nefna aðkomu landshlutateyma að starfi stöðvarinnar, en mikilvægt er að þjónusta í nærsamfélagi barna hvar sem þau búa á landinu sé eins skilvirk og mögulegt er.

Það eru spennandi tímar fram undan sem eiga sér núorðið langan en skemmtilegan aðdraganda. Í honum hafa svo mörg ykkar verið mikilvægur hlekkur.

Að lokum vil ég þakka aftur kærlega fyrir að fá að koma hérna í dag og vona að þessi ráðstefna ýti enn frekar undir samvinnu okkar allra í þágu barna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira