Hoppa yfir valmynd
11. september 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fjármögnun nýs fjarskiptasæstrengs milli Íslands og Írlands verði tryggð

Núverandi og tilvonandi fjarskiptasæstrengir Farice. - mynd

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var samþykkt tillaga samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra þess efnis að tryggja fjármögnun nýs fjarskiptasæstrengs milli Íslands og Írlands (IRIS). Stefnt er að því að taka nýja strenginn í gagnið fyrir lok árs 2022 og árið 2023 hið síðasta. Farice áætlar stofnkostnað við strenginn um 50 milljónir evra. Fyrirvari er um samþykki Alþingis.

Undirbúningur hófst með samningi fjarskiptasjóðs við Farice ehf. í árslok 2018 um fyrsta fasa verkefnisins sem er botnrannsókn og hefur sleitulaust síðan verið unnið skipulega að margvíslegum undirbúningi. Þessi ákvörðun gerir félaginu kleift að ræsa næsta fasa verkefnisins og ljúka samningum við helstu birgja.

„Það er nauðsynlegt að endurnýja kerfið tímanlega þar sem Farice-strengurinn er kominn til ára sinna. Að auki er skjót uppfærsla útlandasambanda jafnvel enn brýnni nú þegar samgöngur í heiminum eru takmarkaðar um ófyrirséðan tíma vegna Covid 19,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Til lengri tíma litið er ennfremur mikilvægt út frá viðskiptasjónarmiðum og samkeppnishæfni, að tryggja fullnægjandi tengingar við umheiminn sem þjónað geta kröfuhörðum og eftirsóknarverðum viðskiptavinum. Betri tengingar við landið styðja jafnframt við nýsköpun, þekkingariðnað og ýmis önnur tækifæri til atvinnu-, menningar- og verðmætasköpunar.

Í stefnu fyrir fjarskipti fyrir tímabilið 2019-2033 sem samþykkt var á Alþingi 2019 kemur fram að þrír virkir fjarskiptasæstrengir skuli tengja Ísland við Evrópu á hverjum tíma. Rökin eru margþætt en öryggissjónarmiðin þó mikilvægust. Jafnframt hefur atvinnulífið lagt þunga áherslu á að nýr fjarskiptasæstrengur verði lagður á næstu árum og að hann verði að fullu fjármagnaður af ríkissjóði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira