Hoppa yfir valmynd
11. september 2020 Utanríkisráðuneytið

Mannréttindi og lýðræði eru lykillinn að því að enginn verði út undan í baráttunni gegn COVID-19

COVID-19 heimsfaraldurinn skapar hættu á að sú öfugþróun sem hefur verið á alþjóðavísu gegn lýðræði og minnkandi virðingu fyrir mannréttindum verði hraðari. Faraldurinn magnar upp þann ójöfnuð sem fyrir hendi er og kemur harðast niður á þeim sem þegar eru jaðarsettir, undirokaðir af mismunun og lifa í fátækt.

Norrænu ríkisstjórnirnar tala fyrir alþjóðlegri samvinnu, samstöðu, mannréttindum og lýðræði í baráttunni gegn heimsfaraldrinum. Of róttækar ráðstafanir geta haft alvarlegar og víðtækar afleiðingar á mannréttindi og meginreglur lýðræðisins. Við höfum áhyggjur af því að tilteknar ríkisstjórnir notfæri sér ástandið og noti heimsfaraldurinn sem yfirskin til að brjóta gegn mannréttindum, þrengja að lýðræðinu og endurskilgreina gildandi leikreglur á alþjóðavettvangi.

Sem betur fer höfum við séð alþjóðasamfélagið bregðast við. Aðaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, hefur staðið í fararbroddi með því að kalla eftir alþjóðlegu vopnahléi til að milda áhrif heimsfaraldursins, og með því að setja mannréttindi á oddinn. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda, mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu, sem og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, hafa gegnt forystuhlutverki í því að takast á við mikilvægar áskoranir vegna COVID-19.

Til að styðja við slíka viðleitni leitast ríkisstjórnir Norðurlanda við að tryggja að mannréttindi, lýðræði, réttarríkið og kynjajafnrétti verði nú þegar þungamiðjan í varanlegum viðbrögðum um allan heim. Uppbyggingin verður að vera betri og umhverfisvænni og við erum reiðubúin að taka forystuna í því að styrkja alþjóðlega samvinnu á komandi árum.

Til að svo megi verða þarf fernt til:

Við verðum að virkja alþjóðasamfélagið - COVID-19 heimsfaraldurinn er kreppa fyrir mannkynið sem stefnir hraðbyri í að breytast í mannréttindakreppu. Alþjóðasamfélagið hefur með heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun skuldbundið sig að skilja engan eftir. Við verðum að standa við þessa skuldbindingu og tryggja að allar ráðstafanir gegn faraldrinum virði mannréttindi.

Við verðum að tryggja gagnsæi og aðgang að áreiðanlegum upplýsingum. Það verður að vernda og styrkja raddir sjálfstæðra fjölmiðla og borgarasamfélagsins, þar með talið þá sem verja mannréttindi. Árvekni þeirra og umfjöllun munu stuðla að því að ríkisstjórnir verði látnar sæta ábyrgð. Það er einnig brýnt að verjast villandi upplýsingum og áróðri og vinna náið með fjölmiðlum, tæknifyrirtækjum og einkageiranum ásamt borgarasamfélagi og öðrum haghöfum.

Við verðum að tryggja að horft sé til kynjajafnréttissjónarmiða í viðbrögðum um heim allan. Heimsfaraldurinn hefur verið tengdur við aukið kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og aðra skaðlega hegðun. Einnig hefur ástandið versnað til muna með tilliti til kynheilbrigðis og -réttinda fyrir alla, svo sem nútíma getnaðarvarna, öruggra og löglegra fóstureyðinga og ítarlegrar kynfræðslu.

Ekki má nota álagið sem COVID-19 skapar fyrir heilbrigðiskerfi sem afsökun fyrir því að hindra konur og stúlkur að því að nota þjónustu á sviði kynheilbrigði og -réttinda. Við stöndum saman í því að leiðrétta kerfislæga mismunun og munum halda áfram að styrkja efnahagslega og stjórnmálalega valdeflingu kvenna og full og jöfn mannréttindi þeirra, þar með talið kynheilbrigði og -réttindi.

Loks verðum við að vera á verði og tryggja að alþjóðlegir staðlar og meginreglur breytist ekki. Engin viðbrögð við COVID-19 mega grafa undan alþjóðalögum, lýðræðinu eða stofnunum þess.

Nú er tíminn til að grípa til aðgerða til að vernda og styrkja alþjóðakerfið og þær reglur sem það byggist á. Fjölþjóðastofnanirnar þurfa stjórnmálalegan og fjárhagslegan stuðning. Einnig þarf að styrkja traust almennings til lýðræðisins og stofnana þess.

Í dag höfum við rætt við leiðandi fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins, Evrópuráðsins, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og borgarasamfélagsins. Saman fylgjum við orðum okkar eftir með aðgerðum, tökum forystuna í því að tryggja að mannréttindi, lýðræði, réttarríkið og kynjajafnrétti séu þungamiðjan í viðbrögðum og endurreisninni um heim allan.

Við erum reiðubúin að deila reynslu Norðurlandanna af því að byggja upp traust með því að sameina forystu, gagnsæi og samvinnu milli stofnana ríkis og sveitarfélaga annars vegar og borgarasamfélagsins hins vegar. Við erum einnig reiðubúin að láta raddir okkar heyrast og nota reynslu okkar þegar mannréttindum, lýðræði, réttarríkinu og kynjajafnrétti er ógnað.

Viðbrögðin við heimsfaraldrinum mega ekki leiða til veikara lýðræðis eða mannréttindabrota. Þvert á móti er lýðræðisleg nálgun á grundvelli kynjajafnréttis og mannréttinda lykillinn í baráttunni við COVID-19 og í að hrinda í framkvæmd áætluninni um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra
Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur
Rasmus Prehn þróunarsamvinnuráðherra Danmerkur
Pekka Haavisto utanríkisráðherra Finnlands
Ville Skinnari þróunarsamvinnu- og utanríkisviðskiptaráðherra Finnlands
Ine Eriksen Søreide utanríkisráðherra Noregs
Dag-Inge Ulstein þróunarsamvinnuráðherra Noregs
Ann Linde utanríkisráðherra Svíþjóðar
Peter Eriksson þróunarsamvinnuráðherra Svíþjóðar

Greinin birtist á vef Fréttablaðsins og víðar á Norðurlöndum 11. september 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum