Hoppa yfir valmynd
15. september 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Öflugra heilbrigðiskerfi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneyti

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Heilbrigðismálum er skipaður stór sess í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Fjallað er um þau í fyrsta hluta fyrsta kafla sáttmálans, Sterkt samfélag, þar sem segir meðal annars að allir landsmenn eigi að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. Þar segir líka að ríkisstjórnin muni fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland, framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna Landspítala muni hefjast á kjörtímabilinu og heilsugæslan verði efld.

Nú þegar um það bil ár er eftir af kjörtímabili sitjandi ríkisstjórnar er ánægjulegt að geta sagt frá því að fyrrnefndum markmiðum varðandi heilbrigðisstefnu, byggingaframkvæmdir við Landspítala og eflingu heilsugæslunnar hefur þegar verið náð. Þessum markmiðum og fleiri mikilvægum markmiðum í heilbrigðismálum hefur okkur tekist að ná í krafti þess að fjárframlög til heilbrigðismála hafa aukist jafn og þétt á kjörtímabilinu. 

Á kjörtímabilinu hingað til, þ.e. á árunum 2017-2021, hafa útgjöld til heilbrigðismála hækkað um 73,8 milljarða króna. Það er samtals um 37,7% hækkun til málaflokksins á þessu árabili, reiknað á verðlagi hvers árs. Reiknað á áætluðu föstu verðlagi ársins 2020 nemur hækkunin um 43 milljörðum króna. Það er um 19% raunhækkun, það er hækkun umfram verðlagsbreytingar. Tölurnar sem byggt er á í þessum útreikningi fyrir árið 2021 eru byggðar á drögum að frumvarpi til fjárlaga ársins 2021 á verðlagi ársins 2020.

Ef hækkun fjárframlaga til málaflokksins er sett í samhengi við íbúafjölda hafa þau hækkað um rúmlega 70.000 krónur á hvern íbúa á föstu verðlagi, eða um 10,6% á þessu tímabili. Þegar einstakir málaflokkar sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið eru skoðaðir má til dæmis nefna að framlög til heilsugæslu hafa aukist um rúm 23% á árunum 2017-2021, á föstu verðlagi ársins 2020, framlög til almennrar sjúkrahúsþjónustu hafa hækkað um tæp 19% og framlög vegna hjálpartækja hafa hækkað um rúm 35%. 

Útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi nema ríflega fjórðungi útgjalda ríkisins, og því er ljóst að samfara styrkingu heilbrigðiskerfisins með auknum fjárframlögum verður að vera skýrt hvert við stefnum og hvernig skal forgangsraða verkefnum svo fjármögnun þeirra sé tryggð. Heilbrigðisstefnan sem nú hefur verið samþykkt á Alþingi er mikilvægt leiðarljós fyrir okkur öll í þeirri vegferð, og styrkir okkur þar af leiðandi í því að efla heilbrigðiskerfið þannig að allir landsmenn fái notið góðrar heilbrigðisþjónustu í öflugu heilbrigðiskerfi, óháð efnahag og búsetu. 

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 15. september 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira