Hoppa yfir valmynd
18. september 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mikilvægi foreldrasamstarfs fyrir skólastarf: Foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla runnu að þessu sinni til Foreldrafélags Djúpavogsskóla en jafnframt voru í gær veitt hvatningarverðlaun og Dugnaðarforkur Heimilis og skóla útnefndur við skemmtilega athöfn í Safnahúsinu. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði gesti og afhenti verðlaunin.

„Verkefni foreldra í nútímasamfélagi eru geysilega fjölbreytt en eitt af þeim snýr að þátttöku í samfélagi barna sinna, virkni í skólasamfélaginu. Foreldraverðlaun Heimilis og skóla eru mikilvæg hvatning sem lyftir þessu samstarfi og frumkvæði í skólasamfélaginu. Ég óska verðlaunahöfum þessa árs hjartanlega til hamingju og færi þeim þakkir fyrir þann innblástur sem þau sýna með framtakssemi, hugmyndauðgi og þrautseigju,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Foreldrafélag Djúpavogsskóla fær verðlaunin ár vegna verkefnis þeirra en þau settu á laggirnar nytjamarkaðinn Notó, en enginn nytjamarkaður eða móttaka heilla hluta var fyrir á Djúpavogi. Markaðurinn er opinn einu sinni í viku og sjá nemendur skólans um að raða, verðleggja og afgreiða. Einn bekkur sér um hverja opnun undir leiðsögn eins til tveggja foreldra. Innkoma Notó rennur svo beint til barnanna og meðal þess sem fjármagnað hefur verið eru útirólur, leikrit, fyrirlestrar og stutt ferðalög fyrir nemendur. Þá hefur foreldrafélagið boðið upp á fjölbreyttar smiðjur, örnámskeið og fyrirlestra í nokkur ár. Markmiðið er að bjóða upp á einn til tvo viðburði á Smiðjuhelgi frá utanaðkomandi aðila og virkja foreldra og mannauð Djúpavogshrepps.

Ragnheiður Davíðsdóttir var útnefnd Dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið 2020. Hún hefur unnið að samstarfi heimila og skóla í sínu nærsamfélagi í mörg ár og í tilnefningu segir að henni séu félagsmálin hugleikin og að hún sé í góðu sambandi við félagsmiðstöðina og hverfamiðstöðina í hverfinu.

Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla hlaut verkefnið Bókabrölt í Breiðholti sem fimm foreldrafélög standa að. Hvert félag útbjó bókaskáp sem þau fóstra, en skáparnir eru staðsettir á mismunandi stöðum Breiðholtinu en þar er hægt að gefa bók og þiggja bók. Í hillurnar má gefa allar tegundir bóka, á öllum tungumálum fyrir allan aldur. Tengt Bókabröltinu ákváðu foreldrafélögin í Breiðholtinu að kaupa bókaviðgerðarvél fyrir skólasöfnin í skólunum fimm.

Sjá nánar um verðlaunin á vef Heimilis og skóla.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum