Hoppa yfir valmynd
23. september 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Heildarendurskoðun á lögum um fæðingar- og foreldraorlof - frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda

Drög að frumvarpi  um ný heildarlög um fæðingar- og foreldraorlof  eru nú komin í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningur getur komið á framfæri ábendingum og tillögum. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur sett drög að frumvarpi um ný heildarlög um fæðingar- og foreldraorlof  í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningur getur komið á framfæri ábendingum og tillögum. Ráðherra skipaði nefnd í ágúst 2019, sem hafði það hlutverk að endurskoða lögin í heild sinni. Í kjölfarið vann nefndin drög að frumvarpi þar sem þær efnislegu breytingar sem hún leggur til eru útfærðar. Þau frumvarpsdrög sem nú fara í samráðsgátt eru óbreytt frá nefndinni og mun frumvarpið að öllum líkindum taka breytingum í samræmi við athugasemdir sem berast.

Helstu breytingar sem lagar eru til í frumvarpinu er lenging fæðingarorlofs út 10 mánuðum í 12 mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá 1. janúar 2021. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja einn mánuð sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í sjö mánuði en hitt í fimm.

Þá eru lagðar til frekari heimildir í frumvarpinu varðandi yfirfærslu réttinda til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks milli foreldra þegar annað foreldrið getur ekki af ákveðnum ástæðum nýtt rétt sinn innan kerfisins. Er annars vegar um að ræða þau tilvik þegar ekki hefur reynst mögulegt að feðra barn samkvæmt barnalögum fyrir sýslumanni eða dómara. Hins vegar er um að ræða þau tilvik þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili.

Aðrar tillögur nefndarinnar er að finna í drögum frumvarpsins í samráðsgátt

 Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er mikið fagnaðarefni að frumvarpið um fæðingar- og foreldraorlof sé nú komið í samráðsgáttina og ég hvet almenning til að koma á framfæri ábendingum og tillögum. Í ár eru tuttugu ár liðin frá gildistöku laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem voru gríðarlega framsækin á þeim tíma en það var komin tími til að endurskoða þau og færa til nútímans. Við viljum áfram skapa gott umhverfi fyrir fólk sem eignast börn og gera þeim kleift að njóta dýrmætra stunda með barninu á fyrstu mánuðum þess, og þetta frumvarp verður stórt skref í þá átt.“

Frumvarpið verður í Samráðsgátt stjórnvalda til og með 7. október nk. Smelltu hér til að sjá frumvarpið í samráðsgátt. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira