Hoppa yfir valmynd
30. september 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Fýsileiki framtíðarhúsnæðis Náttúruminjasafns Íslands á Seltjarnarnesi

 Fýsileiki framtíðarhúsnæðis Náttúruminjasafns Íslands á Seltjarnarnesi  - myndNáttúruminjasafn Íslands
Bygging Lækningaminjasafns Íslands á Seltjarnarnesi hentar að mörgu leyti vel fyrir starfsemi Náttúruminjasafnsins með lítilsháttar breytingum. Þetta er niðurstaða starfshóps sem falið var að meta forsendur við staðsetningu höfuðstöðva Náttúruminjasafns Íslands á Seltjarnarnesi, með tilliti til nýtingar á ókláruðu húsnæði Lækningaminjasafns við Safnatröð, sem og á Nesstofu við Neströð.

„Það er löngu tímabært að þjóðin eignist glæsilegt náttúrufræðisafn og að því stefnum við. Það er fengur að þessari greinargerð, starfshópurinn metur það fýsilegt að Náttúruminjasafn Íslands eigi sínar framtíðarhöfuðstöðvar á Seltjarnarnesi en þó er enn að mörgu að huga er tengist húsakynnum og starfsemi Lækningaminjasafnsins. Íslensk náttúra er einstök, við höfum allt að vinna að efla fjölbreytta fræðslu og miðlun um hana – ekki síst fyrir unga fólkið okkar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Náttúruminjasafn Íslands var stofnsett með lögum árið 2007 en sögu þess má rekja mun lengra aftur. Safnið er eign íslenska ríkisins, eitt þriggja höfuðsafna landsins, auk Þjóðminjasafns Íslands og Listasafns Íslands, og starfar samkvæmt lögum um Náttúruminjasafn Íslands og safnalögum. Náttúruminjasafnið er fræðslu- og vísindastofnun sem er ætlað að gegna miðlægu hlutverki við miðlun þekkingar og upplýsinga um náttúrufræðileg efni og vera ráðgefandi gagnvart öðrum söfnum landsins sem sýsla með náttúruna. Stofnunin byggir starfsemi sína á rannsóknum og gagnaöflun á eigin vegum og í samstarfi við aðra, miðlun þekkingar og upplýsinga með staf- og rafrænni útgáfu, ráðgjöf, fyrirlestrum og sýningahaldi.

Náttúruminjasafnið býr sem stendur ekki yfir eigin húsnæði, hvorki til sýningahalds né annarra starfa en breyting varð á högum safnsins seint á árinu 2018 þegar safnið opnaði sína fyrstu sjálfstæðu sýningu, Vatnið í náttúru Íslands, í Perlunni.

Hugmyndir um nýtingu húsnæðis Lækningaminjasafns undir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands eru ekki nýjar af nálinni en möguleiki á nýtingu húsnæðisins alfarið fyrir starfsemi á vegum Náttúruminjasafns Íslands er fyrst kannaður í þessari greinargerð.

Málið er nú til frekari skoðunar á vettvangi mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Greinargerð starfshópsins má nálgast hér.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira