Hoppa yfir valmynd
1. október 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

127 milljarða sókn í mennta- og menningarmálum

Fjárveitingar til málefna sem falla undir mennta- og menningarmálaráðuneytið hækka um 11% milli áranna 20-21 og verða 127,2 milljarðar kr. á næsta ári, samkvæmt frumvarpi til fjárlaga sem lagt var fram í dag. Um 51 milljarður kr. fer til háskólastigsins, 38 milljörðum kr. verður veitt til framhaldsskólastigsins og 17,6 milljörðum kr. til menningar-, íþrótta og æskulýðsmála.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra:
„Fjárlagafrumvarpið sýnir glögglega mikilvægi mennta- og menningar og ég fagna þeim vilja sem birtist í auknum fjárveitingum til málaflokka ráðuneytisins. Ég vænti þess að eiga gott samtal við þingið um fyrirliggjandi tillögur og er sannfærð um að niðurstaðan verði góð. Við þurfum á því að halda, því menntun og menning varða leiðina að bjartari framtíð okkar.“

VIÐURKENNING Á GILDI MENNINGAR
Umsvifin á sviði menningarmála aukast verulega milli ára. Fjárveitingar til safnamála hækka um 11%, hækkun til menningarstofnana nemur 9% og menningarsjóðir stækka um 9%. Meðal einstakra liða má nefna 300 milljóna kr. fjárveitingu vegna húsnæðismála Náttúruminjasafns Íslands, 200 milljónir kr. til undirbúnings vísinda- og upplifunarsýningar  fyrir börn og ungmenni og 225 milljóna kr. aukningu vegna tímabundinnar fjölgunar listamannalauna. Þá eru 550 milljónir kr. eyrnamerktar markmiðum og aðgerðum í nýrri kvikmyndastefnu sem kynnt verður innan tíðar.  

AUKIN FJÁRFESTING Í MENNTUN OG VÍSINDUM 
Um 40% af fjárveitingum ráðuneytisins renna til háskólastarfsemi, sem er stærsti einstaki málaflokkur ráðuneytisins. Framlög til háskóla- og rannsóknastarfsemi hækka um 7% milli ára, þar sem bæði er um að ræða aukinn beinan stuðning við skólastarfið og fjárveitingar til einstakra verkefna. Aukin framlög í Nýsköpunarsjóð námsmanna nema 300 milljónum kr. og 159 milljónir kr. fara í fjölgun námsplássa í hjúkrunarfræði og fagnám fyrir sjúkraliða, svo dæmi séu nefnd. Þá er gert ráð fyrir verulega auknum fjárveitingum vegna stuðnings við námsmenn, þar sem 2021 verður fyrsta heila starfsár nýs Menntasjóðs námsmanna. 

Fjárveitingar til framhaldsskólanna aukast um 3,6% milli áranna 20-21 og verða 36,2 milljarðar kr. Fjárfest verður í margvíslegum menntaumbótum sem eiga að nýtast öllum skólastigunum og framlög í rannsókna- og vísindasjóði hækka um 67% milli ára, úr 6,2 milljörðum kr. í 10,3 milljarða kr.

Ítarlegri fréttir um ætlaðar fjárveitingar til einstakra málefnasviða mennta- og menningarmálaráðuneytisins verða birtar á vef ráðuneytisins á næstunni. 
-

   

* Tölur eru byggðar á frumvarpi til fjárlaga, sem lagt var fram 1. október 2020

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira