Hoppa yfir valmynd
3. október 2020 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Hertar samkomutakmarkanir taka gildi 5. október

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um hertari samfélagslegar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu Covid-19. Ný reglugerð þess efnis tekur gildi mánudaginn 5. október  og verður birt á morgun.

Stærstu einstöku breytingarnar verða 20 manna fjöldatakmörkun með ákveðnum undantekningum en þar má nefna 50 manna hámark í útförum  og 100 manna hámark í tilteknum verslunum. Krám, skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum verður lokað. Sundlaugar verða áfram opnar en með þrengri fjöldatakmörkunum, eða 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi. Ekki verða breytingar á starfsemi leik- og grunnskóla. Í framhalds- og háskólum munu gilda 25 manna fjöldatakmarkanir og er þar miðað við algenga bekkjarstærð. Áfram verður eins metra reglan í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð. Gerð verður sérstök grein fyrir reglum í íþrótta- og menningarstarfsemi í auglýsingu en ekki verður gert ráð fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum. Starfsemi leikhúsa miðast við 100 manna hólf og grímuskyldu.

Vakin er athygli á því að vikið er frá tillögum sóttvarnalæknis að því leyti að í framhalds- og háskólum verður miðað við 25 manna fjöldatakmörk í stað 20 manna og 50 manna fjöldatakmörk í útförum.

Í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra er rakin þróun COVID-19 faraldursins hér á landi að undanförnu. Þar kemur fram að frá 15. september til 1. október hafi um 560 einstaklingar greinst innanlands, daglegur fjöldi nýgreindra verið um 30-40 og hlutfall þeirra sem er í sóttkví verið um 50%. Á sama tíma hafi fjöldi þeirra sem veikst hefur alvarlega aukist og um 20 einstaklingar þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda: „Í ljósi þess að faraldurinn er nú í línulegum vexti og fyrirsjáanlegt er að álag á sjúkrahúskerfið getur farið yfir þolmörk varðandi COVID og önnur verkefni, þá leggur sóttvarnalæknir til að gripið verði til harðari samfélagslegra aðgerða til bæla faraldurinn sem mest niður“ segir meðal annars í minnisblaði sóttvarnalæknis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum