Hoppa yfir valmynd
5. október 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Góður kennari gerir kraftaverk

Alþjóðadagur kennara er í dag. Fá störf eru jafn samfélagslega mikilvæg og kennarastarfið. Við munum öll eftir kennurum sem höfðu mikil áhrif á okkur sem einstaklinga, námsval og líðan í skóla. Góður kennari skiptir sköpum. Góður kennari mótar framtíðina. Góður kennari dýpkar skilning á málefnum og fær nemandann til að hugsa afstætt í leit að lausnum á viðfangsefnum. Góður kennari opnar augu nemenda fyrir nýjum hlutum, hjálpar þeim áfram á beinu brautinni og stendur við bakið á þeim sem þurfa á því að halda. Góður kennari tekur upp hanskann fyrir þá sem minna mega sín og gerir kraftaverk í lífi barns. Góður kennari lyftir þungum brúnum og getur kallað fram hlátrasköll. Góður kennari styrkir einstaklinginn.

Skólastarf á tímum heimsfaraldurs er ómetanlegt. Þegar fyrst var mælt fyrir um takmarkanir á skólahaldi, þann 13. mars, var rík áhersla lögð á mikið og gott samráð við lykilaðila í skólasamfélaginu; Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, skólameistara og rektora, og ekki síður nemendur. Það samstarf hefur skilað góðum árangri, gagnkvæmum skilningi á stöðu ólíkra hópa og samtali sem tryggt hefur skólastarf í landinu, á sama tíma og börn í mörgum öðrum löndum hafa þurft að sitja heima.

Nemendur á öllum skólastigum eru yfir hundrað þúsund talsins. Í leik- og grunnskólum eru um 64.650 nemendur og 11.450 starfsmenn. Í framhalds- og háskólum eru um 41.000 nemendur. Aðstæður skóla og nemenda hafa verið ólíkar í heimsfaraldrinum og skoðanir um aðgerðir á hverjum tíma skiptar. Allir hafa þó lagst á eitt við að tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks og ég dáist mjög að þeirri seiglu sem birtist í árangrinum. Það er ómetanlegt fyrir börn að komast í skólann sinn, að læra og eiga fastan punkt í tilveru sem er að hluta til á hvolfi.

Við erum menntaþjóð. Við viljum vera samfélag sem hugsar vel um kennara sína, sýnir þeim virðingu og þá viðurkenningu sem þeir eiga skilið. Við viljum vera samfélag sem fjárfestir í menntun, enda er framúrskarandi menntun ein meginforsenda þess að Ísland verði samkeppnishæft á alþjóðavettvangi. Fjárlagafrumvarpið í ár sýnir glögglega mikilvægi menntunar og hvernig forgangsraðað er í þágu þessa.

Aldrei hef ég verið eins stolt af íslensku menntakerfi og einmitt nú, þegar hindrunum er rutt úr vegi af fagmennsku og góðum hug. Kennarar og skólastjórnendur hafa sýnt mikla yfirvegun og baráttuvilja. Umhyggja, sveigjanleiki og þrautseigja hefur verið leiðarljósið okkar nú í haust og við munum halda áfram á þeirri vegferð. Ég hvet alla til að halda áfram að vinna að farsælum lausnum á þeim verkefnum sem blasa við okkur.

Kæru kennarar. Ykkar framlag í baráttunni við veiruna skæðu verður seint fullþakkað. Takk fyrir að halda áfram að kenna börnunum okkar og leggja ykkur fram við að bjóða nemendum upp á eins eðlilegt líf og hægt er.

-

Fyrst birt í Morgunblaðinu, 5. október 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira