Hoppa yfir valmynd
5. október 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Trú- og lífsskoðunarfélög ræða alþjóðlegt samstarf í umhverfismálum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hlýðir á patríarkann af Konstantínópel, Bartholomew I. - mynd

„Við verðum að takast á við áskoranir heimsins í umhverfismálum sem ein órofa heild“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í ávarpi sínu á alþjóðlegu ráðstefnunni Faith for Nature sem nú fer fram. Öll trúarbrögð eigi það sameiginlegt að þau feli í sér vissa siðferðisleiðsögn, auk þess sem þau kenni virðingu fyrir samborgurum okkar og náttúrunni. „Þess vegna er það eðli málsins samkvæmt að trúfélög út um allan heim taki sér á hendur hið áríðandi verkefni að vera siðferðislegir gæslumenn náttúrunnar, landverðir, þannig að við og aðrar tegundir fáum notið ávaxta hennar en á sama tíma borið gæfu til að vernda og viðhalda henni“, sagði Guðmundur Ingi í ávarpi sínu.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setti ráðstefnuna í beinni útsendingu frá Skálholti í dag en fulltrúar fjölmargra trúar- og lífsskoðunarfélaga taka þátt með myndbandsupptökum eða í gegnum fjarfundarbúnað. Sem dæmi má nefna patríarkann af Konstantínópel, einn af kardinálum kaþólsku kirkjunnar, háttsetta fulltrúa síja- og súnnímúslima og búddisma og gyðingdóms.Þá ávörpuðu Inger Andersen, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og Agnes M. Sigurðardóttir, biskup íslensku þjóðkirkjunnar, ráðstefnuna í dag.

Markmið ráðstefnunnar er m.a. að ræða hlutverk trúar- og lífsskoðunarhópa í að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í því miði verða unnin drög að sameiginlegri ályktun sem vilji stendur til að afla fylgis og leggja fram á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna (UNEA 5) á næsta ári. Á fimmta hundrað manns í 58 löndum taka þátt í ráðstefnunni, og enn fleiri fylgjast með á netinu. Ráðstefnan stendur yfir dagana 5.-8. október.

Umhverfis- og auðlindaráðherra flutti ávarp sitt í dag í gegnum fjarfundarbúnað. Sagði Guðmundur Ingi í ávarpi sínu mikilvægt að viðhalda sterkum tengslum milli heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og trúarbragða heims og að viðurkenna hlutverk þeirra við að ná þeim markmiðum sem alþjóðasamfélagið hefur sett sér við að bæta lífsgæði mannkyns og verja Jörðina.

Ráðherra ræddi stöðu Jarðarinnar, þar sem líffræðilegum fjölbreytileika hnignaði, mengun væri útbreidd um allar heimsálfur og heimshöfin og loftslagsváin þrengdi að búsvæðum manna og dýra. Hann kallaði eftir frekari aðgerðum byggðum á vísindum og samtakamætti þjóða, þar sem allir geirar samfélagsins þyrftu að leggjast á árarnar. En þegar allt kemur til alls þá eru það kannski ekki bara spár loftslagsvísindamanna, greiningar hagfræðinga eða stefnumarkandi áætlanir sem knýja okkur til aðgerða, heldur ekki síður það að hjartað segir okkur að gera það. Við breytum í  samræmi við gildismat okkar“. Og fyrir marga væri gildismat þeirra nátengt trúnni og þess vegna væri svo mikilvægt að taka höndum saman um framfylgd heimsmarkmiðanna og umhverfisverndar þvert á trú og trúarhópa sem öll deildu þeim gildum að bera virðingu fyrir samborgaranum, náttúrunni og sköpunarverkinu. 

Þess vegna væri hlutverk trúarsamfélaga afar mikilvægt í þessu sambandi. „Raddir ykkar verða að heyrast,“ sagði ráðherra.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum