Hoppa yfir valmynd
6. október 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölbreyttar aðgerðir til að vega á móti einmanaleika og félagslegri einangrun aldraðra

Ráðist hefur verið í fjölbreyttar aðgerðir til að vega á móti einmanaleika og félagslegri einangrun aldraðra. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og félagsmálaráðuneytið hafa undanfarið styrkt fjölmörg verkefni sem miða að því að vinna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika aldraðra. Einmanaleiki og félagsleg einangrun er algeng hjá öldruðum og er styrkjunum ætlað að bregðast við þeirri stöðu og styðja við fjölþættar aðgerðir sem miða við að draga úr félagslegri einangrun og einmanaleika þessa hóps. Aðgerðunum er bæði ætlað að bregðast við þeim áhrifum sem COVID-19 faraldurinn hefur haft á hópinn en einnig að styrkja stöðu aldraðra og draga úr einmanaleika til lengri tíma.

Meðal verkefna sem ráðherra og ráðuneytið hafa stutt við bakið á má nefna styrki til sveitarfélaga landsins til að efla félagsstarf fullorðinna í sumar vegna COVID-19. Rauði krossinn á Íslandi hlaut styrk til að efla hjálparsímann og netspjall 1717, en þau gegna mikilvægu hlutverki við að veita virka hlustun og ráðgjöf um samfélagsleg úrræði til fólks á öllum aldri sem þarf á stuðningi að halda. Alzheimersamtökin hlutu styrk til þess að geta brugðist við auknu álagi í þjónustu samtakanna við viðkvæma hópa sem hafa orðið fyrir áhrifum vegna COVID-19. Samtökin fengu einnig styrk vegna verkefnisins Styðjandi samfélag, þar sem markmiðið er að gera fólki með heilabilun kleift að lifa í samfélagi sem skilur aðstæður þeirra, mætir þeim af virðingu og aðstoðar eftir þörfum.

Þá hlaut Landssamband eldri borgara fjárframlag sem annars vegar er ætlað að styrkja samtökin í því að bregðast við auknu álagi í þjónustu við viðkvæma hópa sem faraldurinn hefur haft áhrif á og berjast gegn einmanaleika og einangrun eldri borgara. Hins vegar fengu samtökin styrk í tengslum við gerð upplýsingasíðu fyrir eldri borgara. Verkefnið Aldur er bara tala hlaut styrk, en það miðar að því að opna upplýsingaveitu á vefnum þar sem stefnt er að því að ná til fólks sem er eldra en 60 ára auk starfsfólks í öldrunarþjónustu. Er vefurinn liður í því að innleiða velferðartækni betur inn í þjónustu við elstu aldurshópana.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Aldraðir og aðrir viðkvæmir hópar upplifa margir hverjir mikla félagslega einangrun og COVID-19 faraldurinn hefur aukið á félagslega einangrun þessara hópa. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að við styðjum við fjölbreyttar aðgerðir til þess að vega á móti einmanaleika og félagslegri einangrun, og það er ánægjulegt að fá að styðja við bakið á fjölmörgum góðum verkefnum sem gera nákvæmlega það.”

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira